144. löggjafarþing — 15. fundur,  7. okt. 2014.

umferðaröryggismál.

[14:27]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa umræðu. Besta leiðin til að auka umferðaröryggi er með því að aðskilja akstursstefnur á þeim vegarköflum þar sem umferð er mest. Þess vegna ætti það að vera stjórnvöldum kappsmál hverju sinni að reyna eftir fremsta megni að tryggja fjármögnun á þeim leiðum. Þegar við horfum til þess hvaða leiðir þetta eru þá blasir það við: Það er þjóðvegurinn á milli Reykjavíkur og Selfoss og það er akstursleiðin frá Reykjavík upp í Borgarnes og áfram til Akureyrar. Mér finnst og hefur lengi fundist að við ættum með öllum mögulegum ráðum að reyna að tryggja fjármögnun á þessum leiðum. Mér er það gersamlega óskiljanlegt að við skulum ekki vera nú þegar búin að bjóða út í einkaframkvæmd þessa vegarkafla og fjármagna þá með einhvers konar útfærslu á veggjöldum. Mér finnst það sjálfsagt mál vegna þess að það er eina leiðin til að ljúka þessum verkefnum hratt og örugglega.

Ef menn meina eitthvað með því að umferðaröryggi skipti máli verða þeir að setja peninga í umferðaröryggi. Það er mín skoðun að umferðaröryggi sé mikilvægasta forsendan þegar kemur að ákvörðunartöku í samgöngum. Það eru auðvitað aðrar forsendur sem skipta þar máli eins og byggðamál o.s.frv. en umferðaröryggi er mikilvægasta forsendan.

Ég er mjög ánægður með að við skulum vera að ræða þessi mál hér en mér finnst við ræða þessi mál allt of oft án þess að taka ákvarðanir og án þess að setja peninga þar sem munnurinn á okkur er, svo að maður snari nú yfir ensku orðatiltæki hér í þinginu. En orð eru til alls fyrst. Ég fagna þessari umræðu og hvet stjórnvöld til að beita sér í þessum efnum.