144. löggjafarþing — 15. fundur,  7. okt. 2014.

umferðaröryggismál.

[14:34]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langaði að koma inn á allt annan vinkil en ég gerði áðan af því að síðasta línan í yfirskrift þessarar umræðu er fræðsla og samstarf framkvæmdarvalds Alþingis í umferðaröryggismálum.

Ég nefndi hér sl. vetur, minnir mig, skýrslu frá því 2012 um umferðaröryggismál og vitnaði aðeins í hana er varðaði fræðsluþáttinn. Mig langar aðeins að vitna í hana aftur því að ég efast ekki um að sá áróður hafi skipt miklu máli og þær auglýsingar og annað því um líkt sem við höfum komið í umferð. Auk þess held ég að allir muni eftir auglýsingunum þegar ungt fólk talar í símann og það gerist eitthvað sem þetta unga fólk sem reynt er að höfða til getur tengt sig við. Umferðarstofa var með verkefni á Facebook-síðu sinni sem hét Vertu til. Þar komu framhaldsskólarnir við sögu. Það var mjög áhugavert.

Síðan er það grunnskólafræðslan sem mig langar að spyrja um af því að ég hreinlega veit það ekki. Ég vissi að Grundarskóli á Akranesi var eins konar móðurskóli í umferðarfræðslu fyrir alla grunnskólana og þar var vefurinn umferd.is líka undir. Hann hefur ekki verið færður til nútímans, held ég. Mig langar að spyrja: Er það verkefni enn þá í gangi?

Líka fræðsluefnið Svo kom það fyrir mig í framhaldsskólunum: Er það verkefni lifandi eða var það bara átak sem var 2009?

Síðan langar mig að ræða rétt í lokin, af því að við nefndum undirgöng, hjólreiðastíga og ýmislegt fleira sem hér hefur komið fram, þessi hvíldarsvæði við þjóðvegina fyrir ferðamenn. Eitt af því sem maður rak sig töluvert á í kjördæmavikunni (Forseti hringir.) var að útlendingar sérstaklega stoppuðu bara þar sem þeim datt í hug til þess að taka myndir.