144. löggjafarþing — 15. fundur,  7. okt. 2014.

umferðaröryggismál.

[14:39]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir þessa umræðu. Það er mjög gaman og áhugavert að sitja hér og hlusta á ólík sjónarmið, en þó virðumst við öll sammála um að það þurfi að bæta umferðaröryggi.

Á ferðum okkar í kjördæmavikunni, eins og fram hefur komið, var mikið rætt um samgöngur. Heimamenn víðast hvar hafa miklar áhyggjur. Við hv. þingmenn sem vorum saman í bíl ræddum það hvort gjaldtaka fyrir nýframkvæmdir væri óhugsandi. Eins og hæstv. ráðherra segir erum við með 13 þús. kílómetra vegakerfi og við getum ekki byggt það allt upp nema með einhverjum svona leiðum. Ég held að við þurfum bara að þora að taka þá umræðu, þó að maður vilji auðvitað helst að allt sé ókeypis.

Mig langar að koma líka aðeins inn á merkingar. Ég var næstum því farin fram af vegi um daginn þar sem voru T-gatnamót. Þegar ég var að keyra í kjördæmavikunni sagði hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon mér frá því að hann hefði verið í bíl sem fór út af við T-gatnamót, gott ef það var ekki einhvers staðar í Aðaldal. En á næstu T-gatnamótum sem við komum að voru alveg ótrúlega góðar merkingar við veginn sem þveraði, allt öðruvísi en á hinum staðnum. Ég velti því fyrir mér hversu mikið merkingar geta gert og af hverju þær eru ekki samræmdar og svolítið púður lagt í það.

Mig langar líka að koma aðeins inn á búfénað á vegum úti, aðallega sauðfé. Mér finnst algjörlega nauðsynlegt að merkja þau svæði þar sem sauðfé er að þvælast um vegina og auðvitað ætti að leita allra leiða til að koma í veg fyrir það. Það er mikið tjón sem verður af því. Fólk hefur jafnvel dáið í þannig slysum, þó er eignatjónið algengast. Þetta finnst mér því klárlega eitthvað sem þurfi að skoða.

Annað sem hefur einnig verið nefnt hérna eru útskotin. Það er furðulega lítið af útskotum við þjóðveg 1. Þegar maður keyrir á löglegum hraða og hefur safnað á eftir sér bílalest væri ósköp gott að geta farið inn á þessi útskot og (Forseti hringir.) hleypt bílunum fram hjá. Ef maður er með farþega sem eru bílveikir (Forseti hringir.) getur líka verið nauðsynlegt að stoppa einhvers (Forseti hringir.) staðar á þjóðvegi 1og hleypa fólki út.