144. löggjafarþing — 15. fundur,  7. okt. 2014.

umferðaröryggismál.

[14:41]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langaði að koma aftur í ræðu og nefna það sem margir aðrir hafa nefnt, eða alla vega einhverjir, sem er sú staðreynd að það koma ofboðslega margir ferðamenn til Íslands. Það er í raun miklu meiri umferð hér en við sem þjóð erum vön frá fyrri tímum. Við þurfum því að horfa á þetta í mun stærra samhengi en áður, ekki það að ekki hafi verið brýnt áður að hafa þessi mál í lagi, auðvitað eiga þau að vera í lagi, við erum að tala um mannslíf.

Það eru enn þá einbreiðar brýr, sem mér finnst skrýtið. Það eru enn þá einbreið göng, sem mér finnst enn þá furðulegra. Ég man þegar ég fór fyrst í einbreið göng, Strákagöng á Siglufirði, og var hissa á því að slík göng væru enn þá til, en þau eru það vissulega og ég geri ekki lítið úr því að þessu fylgi gríðarlegur kostnaður. Það er það sem mig langar að benda á: Við þurfum að vera reiðubúin að borga. Þetta kostar peninga en bjargar mannslífum. Þegar við notum peninga úr ríkissjóði eigum við, að mínu mati, að spyrja, þ.e. ef ríkissjóður er ekki kominn upp fyrir núllið, erum við reiðubúin til að fá lánað fyrir þessu? Við eigum alltaf að spyrja þeirrar spurningar. Ég spyr vini mína sem vilja fá peninga í alls konar hluti í þjóðfélaginu: Ertu reiðubúinn til að fá þetta lánað á kostnað barna þinna og barnabarna? Það er spurningin. Þegar kemur að mannslífum í framtíðinni þá er svarið tvímælalaust já. Við eigum einfaldlega að borga þetta. Ef það kostar okkur frekari skuldir eða meiri skatta verður að hafa það. Við verðum að hafa kjark til að segja: Þannig verður þetta, það er ekki gaman en um ræðir mannslíf. Þetta kostar peninga og þarf að kosta peninga.

Mig langar líka að koma inn á annað, sem hv. þm. Brynhildur Pétursdóttir nefndi, sem er að ferðamenn kvarta mikið undan því, alla vega við mig, að hér sé illa merkt. Það eru lélegar merkingar á Íslandi miðað við það sem menn venjast erlendis og þetta er sennilega sá þáttur þar sem við græðum mest öryggi fyrir minnst fé, mundi maður halda. Það er frekar einfalt að merkja.

Að lokum legg ég til að fundir fastanefnda Alþingis verði að jafnaði opnir.