144. löggjafarþing — 15. fundur,  7. okt. 2014.

umferðaröryggismál.

[14:45]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil líkt og aðrir þakka fyrir þessa umræðu og þau sjónarmið sem komið hafa fram. Hér var því haldið fram að í frumvarpi til fjárlaga þessa árs væri fólginn niðurskurður til vegamála en það er ekki rétt. Ef litið er til fjárlaga síðustu ára þá er 850 millj. kr. aukning í því frumvarpi sem nú liggur fyrir og ég sagði það í umræðum á þinginu að ég teldi að því fjármagni væri best ráðstafað til viðhalds. Það þýðir ekki að nóg sé að gert. Það þýðir ekki að við séum búin að ná fullnaðarsigri. En rétt skal vera rétt í því þannig að því sé til haga haldið.

Ég vil taka undir með mörgum sem hér hafa nefnt það, í samhengi hlutanna er varðar samgöngur og uppbyggingu samgöngumannvirkja, að ef við ætlum einungis að bíða eftir því að ríkisvaldið lagi það sem laga þarf eða bæti það sem bæta þarf þá mun það taka mjög langan tíma. Ég tel að það sé löngu tímabært, og hef sett í gang vinnu er varðar það og við höfum áður rætt það hér á þingi, að skoða ákveðnar leiðir um samstarf fjárfesta, einkaaðila, lífeyrissjóða og annarra til uppbyggingar á samgöngumannvirkjum. Ég held að almenningur hér á Íslandi, líkt og í öllum nágrannalöndum okkar, sé reiðubúinn í það og ég held að við verðum að skoða það.

Ég vil líka nefna það sem kom fram í máli hv. þm. Helga Hrafns Gunnarssonar, sem er alveg hárrétt, þegar talað er um ferðamenn. Á nokkrum árum hefur þunginn á vegakerfinu okkar farið úr 300 þús. ferðamönnum á ári og stefnir í að verða meira en milljón á þessu ári. Það gerbreytir stöðunni á vegunum og við þurfum að hafa það í huga.

Fyrst og síðast vil ég þó þakka þessa málefnalegu umræðu. Ég held að við séum að gera margt vel í fræðslu, í ákveðnum átaksverkefnum sem við höfum farið í, í eflingu löggæslu o.s.frv. Stærsta verkefnið okkar fram undan er að gera úrbætur á vegakerfinu okkar og tryggja að þær samgöngur sem í boði eru séu öruggar. Ég vona innilega að okkur takist það. Og það er engum einum um að kenna; ég hvet okkur til að nálgast það ekki þannig: þau gerðu/við gerðum. Það hefur verið hart í búi á undanförnum árum, það hefur komið niður á samgöngum (Forseti hringir.) og við náum engum árangri með því að benda hvert á annað. Við verðum frekar að reyna að forgangsraða fjármagni þannig að það nýtist sem best.