144. löggjafarþing — 15. fundur,  7. okt. 2014.

vegalög.

157. mál
[14:53]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á vegalögum, nr. 80/2007, með síðari breytingum. Frumvarpið var að undanskildum ákvæðum 1. og 2. gr. lagt fram á Alþingi í vor á þessu ári en ekki náðist að mæla fyrir því fyrir þingfrestun. Er það því lagt fram að nýju.

Frumvarp þetta er í raun og veru þríþætt. Í fyrsta lagi er um að ræða innleiðingu á EES-gerðum í íslenskan rétt. Í öðru lagi er um að ræða breytingartillögur sem stafa af vinnu nefndar um endurskoðun vegalaga og er breyting sem lengi hefur verið beðið eftir. Í þriðja lagi er um að ræða breytingar sem leiða af nýlegri heildarendurskoðun á skipulagi samgöngustofnana hér á landi sem fólu í sér að settar voru á stofn tvær stofnanir eins og við þekkjum, annars vegar Samgöngustofa og hins vegar Vegagerðin.

Hvað varðar EES-gerðina, sem við ræðum hér oft, þá er að finna í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins frá 2006 (2006/38/EB), um breytingu á fyrri tilskipunum um álagningu gjalda, þ.e. veggjalda og notkunargjalda og gjalda á þungaflutningabifreiðar fyrir notkun á tilteknum umferðarmannvirkjum, ákvæði um skyldu aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins til að koma á fót árangursríku eftirliti og ákvarða kerfi viðurlaga sem eiga við um brot á þeim ákvæðum landslaga sem samþykkt eru samkvæmt umræddri tilskipun. Því kerfi er ætlað að tryggja að lögaðilar sem standa að slíkri álagningu fari að þeim reglum sem um gjaldheimtuna gilda innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Hvorug þessara tilskipana hefur verið innleidd í íslenskan rétt enn sem komið er. Nú stendur yfir vinna í innanríkisráðuneytinu til að innleiða ákvæði tilskipananna í reglugerð. Til að uppfylla kröfur um viðurlög er hins vegar nauðsynlegt að í vegalögum sé að finna skýra heimild til að leggja sektir á lögaðila, auk þess sem kveða þarf á um hvaða háttsemi geti varðað slíkum sektum. Heimild sem þessa er eins og áður sagði ekki að finna í núgildandi lögum. Gert er ráð fyrir því að sett sé ákveðið hámark á sektarfjárhæð.

Við undirbúning þess hluta frumvarpsins sem snýr að innleiðingu EES-gerðarinnar var haft náið samráð við bæði Samgöngustofu og Vegagerðina. Aðeins einn lögaðili í dag sinnir slíkri gjaldheimtu á Íslandi, en það er Spölur sem sinnir gjaldheimtu í Hvalfjarðargöngum líkt og þingheimur þekkir. Þá er fyrirséð að til slíkrar gjaldheimtu muni koma í Vaðlaheiðargöngum þegar þau verða opnuð. Efni frumvarpsins var kynnt fyrir fulltrúum beggja þessara aðila og fundað með þeim í kjölfarið til að ræða áhrifin. Ekki komu fram athugasemdir við efni frumvarpsins af þeirra hálfu.

Virðulegur forseti. Hvað varðar efni annarra greina frumvarpsins þá á tilurð þeirra sem fyrr segir rætur að rekja til tillagna nefndar um endurskoðun vegalaga. Í henni áttu sæti fulltrúar innanríkisráðuneytisins, umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, Vegagerðarinnar, Skipulagsstofnunar og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Hlutverk þeirrar nefndar var að fara yfir framkvæmd vegalaga varðandi flokkun vega, en yfirfærsla á tilteknum vegum til sveitarfélaga hefur ekki komist að fullu til framkvæmda þar sem ágreiningur var um með hvaða hætti það skyldi gert.

Í frumvarpinu er að lokum að finna ákvæði sem varða heildarendurskoðun á skipulagi samgöngustofnana líkt og ég nefndi áðan. Frá haustinu 2013 hefur staðið yfir vinna í innanríkisráðuneytinu við yfirferð regluverks í tengslum við stofnun Samgöngustofu og Vegagerðarinnar. Markmið verkefnisins er að stuðla að skilvirkum reglum og gagnsæju eftirlitskerfi á sviði samgangna í landinu til hagsbóta og öryggis fyrir borgarana.

Að því er varðar vegalögin, virðulegur forseti, var það mat ráðuneytisins að hlutverk Samgöngustofu gagnvart Vegagerðinni og að öðru leyti með tilliti til vegalaganna kæmi ekki nægilega vel fram í gildandi lögum. Er því lögð til breyting á II. kafla laganna sem fjallar um stjórn vegamála. Vegagerðin mun áfram hafa það hlutverk að annast framkvæmd laganna nema á annan hátt sé kveðið í lögunum, en meginefni stofnunarinnar snýr að framkvæmd veghalds, þ.e. byggingu, viðhaldi og rekstri vega, auk þess að skilgreina þjóðvegakerfið sem Vegagerðinni er falið að bera ábyrgð á samkvæmt lögum.

Samgöngustofu er hins vegar falið það hlutverk að annast eftirlit með framkvæmd umferðaröryggisstjórnunar vegamannvirkja í samræmi við hlutverk stofnunarinnar samkvæmt lögum sem um hana gilda.

Fyrirséð er að eftirlitið muni að mestu fara fram í formi stjórnsýsluúttekta á gæðakerfum í því skyni að tryggja að vegaframkvæmdir séu í samræmi við lög og reglur. Gert er ráð fyrir að úttektirnar fari fram í samræmi við verklagsreglur sem Samgöngustofa setur sér að höfðu samráði við Vegagerðina, sveitarfélög og eftir atvikum aðra veghaldara. Við mótun þessa verklags skal gæta hagkvæmni og einfaldrar og skilvirkrar stjórnsýslu. Þannig leiði eftirlit Samgöngustofu ekki til tvíverknaðar eða sé með öðrum hætti óþarflega íþyngjandi fyrir hina eftirlitsskyldu aðila. Nauðsynlegt var að skerpa á þessu í lögum.

Virðulegur forseti. Ég vil hér að lokum nefna örfá atriði til viðbótar sem mér finnst mikilvægt að hafa í huga við þetta frumvarp.

Við gildistöku núgildandi vegalaga þann 1. janúar 2008 var gert ráð fyrir að um 1.000 km af tengivegum færðust í flokk héraðsvega og sveitarfélög tækju við viðhaldi þeirra. Af því varð hins vegar ekki. Ástæður þess eru meðal annars þær að núgildandi vegalög voru ekki kostnaðarmetin á þann hátt sem nú er mælt fyrir í tiltölulega nýsamþykktum sveitarstjórnarlögum.

Af þeim breytingum sem rekja má til tillagna nefndarinnar, sem ég kom hér inn á áðan um endurskoðun vegalaga, ber helst að nefna þessar:

Í fyrsta lagi er lögð til breyting á núgildandi vegalögum sem felst í því að um 230 km af vegum sem nú falla í flokk héraðsvega falli aftur í flokk tengivega. Hér er um að ræða umferðarmeiri héraðsvegi landsins. 10 km viðmið gildandi laga hefur sætt töluverðri gagnrýni af hálfu sveitarfélaganna, m.a. með tilliti til snjómoksturs og þess að minni líkur eru taldar á að til þeirra verði litið við lagningu bundins slitlags ef þeir verði áfram í tölu héraðsvega. Er því lagt til að 10 km viðmiðið sé fært niður í 2 km viðmið.

Þá eru einnig lagðar til breytingar á skilgreiningu hugtaksins héraðsvegir og einnig er hlutverk vegaskrár skýrt.

Í öðru lagi er lagt til að bætt verði við nýjum málslið við 28. gr. vegalaga sem fjallar um mat á umferðaröryggi mismunandi valkosta við lagningu vega. Ákvæði 28. gr. vegalaga hefur reynst erfitt í framkvæmd og óljóst hvernig best er að útfæra þau fyrirmæli sem þar koma fram. Í frumvarpinu eru því lagðar til breytingar sem ætlað er að skýra það verklag sem skal viðhafa við framkvæmdina.

Í starfi umræddrar nefndar kom fram að í flestum tilvikum eru samskipti Vegagerðarinnar góð og án vandkvæða, en þó kæmu upp takmarkatilvik sem betur mætti fara. Nefndin taldi að leysa mætti úr flestum ágreiningsmálum með því að tryggja betur samráð Vegagerðar og skipulagsyfirvalda og yrði Vegagerðinni því gert skylt að setja fram mat á umferðaröryggi mismunandi valkosta við vegalagningu með nægum fyrirvara til að skipulagsnefnd viðkomandi sveitarfélags gæti tekið afstöðu til matsins við mótun aðalskipulagstillögu. Þetta er eitthvað sem mörg sveitarfélög telja mjög mikilvægt.

Í þriðja lagi er svo lagt til að ef sameining sveitarfélaga hefur þau áhrif að vegur færist úr flokki stofnvega í flokk sveitarfélagsvega þá skuli Vegagerðin halda við veginum í fimm ár eftir sameiningu meðan sveitarfélag undirbýr viðtöku vegarins.

Í fjórða lagi er lagt til að bætt verði við lögin ákvæði til bráðabirgða sem heimili Vegagerðinni að semja við sveitarfélög um yfirfærslu vega frá Vegagerðinni til sveitarfélaga vegna þeirra vega sem færðust úr flokki stofnvega við gildistöku gildandi vegalaga.

Hæstv. forseti. Ég hef nú rakið helstu atriði frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. umhverfis- og samgöngunefndar til meðferðar.