144. löggjafarþing — 15. fundur,  7. okt. 2014.

vegalög.

157. mál
[15:04]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður spurði hvort þetta væri nýtt. Já, þetta ákvæði 5. gr. er nýtt, en reglugerðin lýtur að nánari fyrirmælum um gjaldtöku. Það er auðvitað þannig að viðkomandi aðilar, í samráði við ríkið í flestum tilvikum, setja ákveðna upphæð er varðar veggjaldið. Þetta eru hins vegar nánari fyrirmæli um það. Svo getum við rætt það — við höfum reyndar rætt það og ég hef nefnt það í þessum sal — að í ýmsum nágrannalöndum okkar, ef við erum að ræða einkaframkvæmdir, er það þannig að hver og ein einkaframkvæmd, hvert og eitt slíkt samstarfsverkefni, kemur til kasta Alþingis á hverjum stað. Ég teldi að ef við ætluðum til dæmis að fara inn í slík verkefni þyrfti að ræða það á hinu háa Alþingi, samþykkja hverja aðgerð fyrir sig og þá með tilvísun í það hver kostnaðurinn af því væri. Hugmyndin er sú með þessu að það séu nánari fyrirmæli, eins og stendur þarna, um fyrirkomulag innheimtunnar sem og viðurlög o.s.frv.

Varðandi það sem hv. þingmaður nefndi um umhverfismat, og hann tengdi það meðal annars við Teigsskóg, er ekki talin þörf á því hvað þetta varðar. Ég tek hins vegar undir það með hv. þingmanni, og það var til dæmis rætt í þingmannahópnum þegar við vorum að ræða ákveðnar lausnir er vörðuðu það að fara með vegtengingu í gegnum Teigsskóg, að skerpa þyrfti á lögunum um umhverfismat ef við ætluðum að láta öryggisþáttinn í umferðinni vega eins og umhverfismálin gera í hæstaréttardómnum sem ég geri ráð fyrir að við séum öll farin að þekkja of vel.

Ég vona að þetta svari spurningum hv. þingmanns.