144. löggjafarþing — 15. fundur,  7. okt. 2014.

umboðsmaður skuldara.

159. mál
[15:17]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef litið yfir þetta mál og sömuleiðis sama mál þegar það var lagt fram á síðasta þingi en fann engar umsagnir um það, eðlilega vegna þess að það var aldrei sent til umsagnar. Ég hlakka svolítið til að sjá umsagnirnar vegna þess að ég velti fyrir mér hvað hafi helst valdið því að stofnanir hafi ekki viljað veita tilteknar upplýsingar. Nú kemur fram í frumvarpinu að verið er að skýra ákvæðið sem er til þess gert að vernda friðhelgi einkalífs skuldara gagnvart persónugögnum og það er gott. En þá velti ég fyrir mér á hvaða forsendum almennt stofnunin hafi verið að þrjóskast við, hvort þetta hafi bara verið einhver svona stofnanalegur mótþrói eða hvort stofnanir — og ég meina stofnanir í mjög víðum skilningi — hafi verið að beita fyrir sig einhverjum rökum gegn því að afhenda viðkomandi upplýsingar.

Sömuleiðis langaði mig að spyrja bara til að vera alveg viss hvort eitthvað af þeim rökstuðningi, svo hæstv. ráðherra viti, hafi verið vegna þess að stofnanir hafi litið svo á að um væri að ræða persónugögn sem þær mættu ekki láta af hendi.