144. löggjafarþing — 15. fundur,  7. okt. 2014.

umboðsmaður skuldara.

159. mál
[15:18]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvað varðar umboðsmann skuldara er það þannig að samstarf við þá sem umboðsmaður skuldara hefur verið að kalla eftir upplýsingum hjá hefur í langflestum tilvikum verið mjög gott. Umboðsmaður skuldara hefur mjög víðtækar heimildir til að kalla eftir upplýsingum til að geta sinnt hlutverki sínu, hefur líka fengið mikla fjármuni til að geta haldið utan um gögn sem snúa að fjárhagslegum málum skjólstæðinga sinna.

Hins vegar hefur í einstaka málum verið hafnað að veita upplýsingar en ég kannast ekki við að það sé á grundvelli þess að viðkomandi telji sig vera að vernda persónuupplýsingar þeirra sem umboðsmaður skuldara er að sinna. Það hafa verið athugasemdir sem snúa að því að menn hafa talið að upplýsingabeiðni umboðsmanns skuldara sé of víðtæk. Það er þannig og þess vegna taldi ég mjög mikilvægt að reyna að koma með þetta mál inn í þingið. Ég vil líka fá umsagnirnar, ég tel að það þurfi að vera algjörlega tryggt að umboðsmaður skuldara geti sinnt sínu hlutverki.

Nú verður það í höndum velferðarnefndar að fara mjög vel yfir hvernig við erum að ramma þetta af varðandi auknar valdheimildir til umboðsmanns skuldara og líka hugsanlega að skoða þau ákvæði sem eru í lögunum hvaða gögnum umboðsmaður skuldara getur kallað eftir.