144. löggjafarþing — 15. fundur,  7. okt. 2014.

umboðsmaður skuldara.

159. mál
[15:23]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðbjarti Hannessyni fyrir fyrirspurnina. Ég vil gjarnan líta frekar á þetta sem fyrirspurn en andsvar.

Ég er algjörlega sammála þingmanninum um að hlutverk umboðsmanns skuldara þarf að vera til staðar í íslensku samfélagi. Það er ekkert nýtt og tengist ekki bara hruninu að fólk kemst í fjárhagslega örðugleika. Nákvæmlega eins og þingmaðurinn segir var orðið löngu tímabært að koma í gagnið, ekki akkúrat stofnun umboðsmanns skuldara en þeim lögum sem umboðsmaður skuldara fer með sem tengjast t.d. greiðsluaðlöguninni, því að fólk fái stuðning og aðstoð við greiðslu varðandi gjaldþrotaskipti, að haldið væri utan um þessa ráðgjöf. Við vorum með Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna á sínum tíma. Hún hafði engan veginn sambærilegar valdheimildir við þær sem umboðsmaður skuldara hefur í dag. Það má segja að það hafi runnið inn í umboðsmann skuldara og þetta er ákveðin jafnvægislist því að hlutverk umboðsmanns skuldara er að gæta hagsmuna skuldara en hann þarf líka að vinna með fjármálafyrirtækjunum og þeim sem eru með kröfur á skuldara.

Þess vegna er mikil áhersla í máli mínu og í greinargerð með frumvarpinu á að það að leggja á dagsektir hlýtur alltaf að vera þrautaúrræði, allt annað er reynt áður en farið er út í það að leggja á dagsektir. Úrræðið þarf samt að vera til staðar, þó að ég telji að það verði mjög sjaldgæft að því verði beitt, vonandi aldrei, það þarf að vera til staðar til þess að umboðsmaður skuldara geti gætt þessara hagsmuna.

Hér eru verulegir hagsmunir undir. Við höfum séð það í svörum frá umboðsmanni skuldara að verið er að fella niður kröfur fyrir milljónir, jafnvel tugi milljóna, á einstaklinga. Ég mundi vilja koma (Forseti hringir.) aftur í seinna andsvari mínu og reyna að svara því sem hv. þingmaður (Forseti hringir.) spurði um og mun gera það.