144. löggjafarþing — 15. fundur,  7. okt. 2014.

umboðsmaður skuldara.

159. mál
[15:31]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra um breytingu á lögum um umboðsmann skuldara og varðar breytingin upplýsingaskyldu og dagsektir.

Ég fagna þessu frumvarpi mjög og tel það mjög tímabært. Staðreyndin er sú að sumar fjármálastofnanir hafa neitað að afhenda embætti umboðsmanns skuldara upplýsingar sem eru nauðsynlegar til að vinna með erfiða skuldastöðu þeirra sem til embættisins leita. Ég tel að það séu flestöllum þung og stór skref að stíga þegar fjárhagsleg staða er orðin mjög erfið og leita þarf aðstoðar eða samninga vegna fjárhagslegra skuldbindinga. Þetta tel ég að sé engum auðvelt. Þess vegna er mjög nauðsynlegt að meðferð málsins og ferlið taki sem skemmstan tíma, t.d. hjá umboðsmanni skuldara og að umboðsmaður geti fengið skýr og skjót svör frá fjármálastofnunum um skuldastöðu einstaklingsins þannig að embættið hafi sem fyrst í höndum allar þær upplýsingar sem þarf til að vinna úr þeirri stöðu sem komin er upp hjá viðkomandi.

Eins og kom fram í ræðu hæstv. ráðherra Eyglóar Harðardóttur hefur það viljað vera svo að ýmsar fjármálastofnanir hafa neitað að afhenda upplýsingar um skuldastöðu einstaklinga. Einnig hef ég fengið upplýsingar um það, m.a. hjá embætti umboðsmanns skuldara, að fjármálastofnanir hafa neitað að afhenda gögn sem sýna fram á hver fjárhagsleg staða viðkomandi er eftir að samningsferli hjá embætti umboðsmanns skuldara er lokið. Segjum sem svo að einstaklingur fari í greiðsluaðlögun, ferli hjá umboðsmanni skuldara sem getur tekið á bilinu eitt til þrjú ár, það er mismunandi hvað það getur tekið langan tíma. Hann fer í gegnum ferlið og lýkur því í þeirri trú að hann sé laus sinna mála og geti byrjað nokkurn veginn að nýju eftir að hafa klárað sína samninga. En það hefur verið þannig, eins og þær upplýsingar sem ég hef fengið sýna, að fjármálastofnanir hafa neitað að svara embættinu um hver fjárhagsleg staða viðkomandi er eftir þetta ferli.

Í kjölfarið á þeim upplýsingum sem ég fékk í vor sendi ég hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra fyrirspurn þar sem ég spurði hvernig tekið væri á málum einstaklinga, sem farið hafa í gegnum ferli hjá umboðsmanni skuldara, í fjármálastofnunum eftir að ferlinu er lokið. Í svarinu kom fram að einstaklingar sem fara í gegnum þetta ferli séu merktir sem slíkir, þ.e. að þeir hafi þurft á ákveðnum úrræðum að halda, í allt að sjö ár hjá fjármálastofnunum eftir að þeir klára sína samninga.

Mér finnst mjög nauðsynlegt að þeir sem fara í gegnum slíkt ferli viti þetta og að embætti umboðsmanns skuldara geti veitt sínum skjólstæðingum þessar upplýsingar þegar til þess er leitað þannig að sá sem stígur skref í þá átt að leita samninga vegna erfiðrar skuldastöðu viti hvað það þýðir til framtíðar, næstu árin. Ég tel að þetta þurfi að skýra mjög vel út fyrir þeim sem til embættisins leita.

Þess vegna tel ég þetta frumvarp sem hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra Eygló Harðardóttir leggur fram vera mjög gott skref í rétta átt því ég tel að það þurfi að vera sem skýrast fyrir alla aðila hvað það þýðir að fara í gegnum t.d. greiðsluaðlögunarferli. Fólk stendur í þeirri trú að það klári sinn þátt á einu til þremur árum en svo virðist ekki vera.

Eins og kom fram í andsvari áðan var verið að velta því fyrir sér hvort það gæti verið að fjármálastofnanir neituðu að afhenda þessar upplýsingar vegna persónuverndarsjónarmiða. Auðvitað getur það vel verið en fjármálastofnanir senda nú þegar upplýsingar um skuldastöðu einstaklinga og fleira inn á sameinaðan gagnagrunn er kallast Creditinfo. Þar er meðal annars hægt að sjá upplýsingar um stöðu sem fjármálastofnanir hafa aðgang að.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra, en vegna þess að ég talaði um nauðsyn þess að leggja frumvarp í þessa veru fram í störfum þingsins snemma í haust vildi ég ítreka ánægju mína með að frumvarpið skuli vera komið fram og nauðsyn þess fyrir alla aðila.