144. löggjafarþing — 15. fundur,  7. okt. 2014.

umboðsmaður skuldara.

159. mál
[15:37]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur fyrir ræðu hennar. Þetta er málaflokkur sem hefur verið henni hjartfólginn og hún hefur fylgt vel eftir. Hv. þingmaður var að skýra út matið sem er lagt á það hversu mikið viðkomandi getur greitt eftir að samningar eru gerðir. Það væri gaman að heyra aðeins betur frá hv. þingmanni um það ósamræmi sem hefur gætt á milli þeirra viðmiða sem umboðsmaður skuldara hefur stundum sett og svo bankarnir þegar þeir gera greiðslumat á möguleikum manna til að fá lán þar sem bankarnir hafa verið með hærri tölur en umboðsmaður.

Ég hjó eftir í ræðu hv. þingmanns að gerð væri krafa um að menn væru í þessum fjötrum, ef það má orða það þannig, í allt að sjö ár. Ef ég man rétt — nú er ég ekki með lögin um umboðsmann skuldara við höndina — þá var talað um að þetta mundi ganga yfir á tveimur til þremur, fjórum árum. Mig langar að heyra meira frá hv. þingmanni um þessi dæmi sem hún nefnir. Hver var orsökin fyrir því að menn gátu teygt þetta miklu, miklu lengur? Hugmyndin var auðvitað að keyra skuldir fólks niður þannig að það réði við afborganir, jafnvel með mjög þröngum ramma til skamms tíma, og þegar sá tími væri liðinn féllu skuldirnar niður ef menn hefðu staðið við samninginn. Mér finnst mikilvægt að þetta komi betur fram vegna þess að þessi athugasemd kom mér á óvart.

Kannski kem ég betur að því í ræðu á eftir en mig langar að heyra líka eitthvað um þá sem hafa hreinlega ekki náð samningum vegna þess að þeir hafa ekki haft greiðslugetu. Þeim hefur nánast verið vísað frá. Ég vil heyra skoðun hv. þingmanns á því máli.