144. löggjafarþing — 15. fundur,  7. okt. 2014.

umboðsmaður skuldara.

159. mál
[15:41]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég átta mig betur á að þarna er í raun ekki um að ræða að samningurinn hafi ekki klárast heldur að það sé verið að halda viðkomandi á einhverjum válista gagnvart frekari fjármögnun síðar. Ég tek undir það með hv. þingmanni að í sjálfu sér sé mjög alvarlegt ef menn geti ekki hreinsað sig af listanum. Það gildir náttúrlega líka um gjaldþrotin.

Þegar við ræðum úrlausnir fyrir fólk sem lendir í áföllum hvað varðar skuldir þá var einmitt breytt ákvæðum um gjaldþrot yfir í það að menn gætu hreinsað af sér skuldir á tveggja ára tímabili, sem átti náttúrlega um leið að vera viðvörun til bankanna um að vera ekki endalaust að lána án þess að leggja mat á það hvaða greiðslugetu menn hefðu í rauninni. Mig langar að heyra afstöðu hv. þingmanns um þá leið. Það sem mér sýnist hafa eyðilagt hana að hluta til er að bankarnir gerðu ekki kröfu um gjaldþrot heldur fóru í árangurslaust fjárnám og þannig gátu þeir haldið við kröfunum miklu lengur en ef farið hefði verið í gjaldþrot.

Af svörum að dæma hafa margir nýtt sér að fá hjálp til að fara gjaldþrotaleiðina. Ég man ekki töluna, hún er á þriðja hundrað.

Mig langar aðeins að heyra skoðun hv. þingmanns á þessu atriði sérstaklega og líka kannski á sértæku skuldaaðlöguninni sem felst í frjálsum samningum án þess að fara í greiðsluaðlögun og nauðungarúrræði gegnum umboðsmann og þá hvort sá rammi sem settur er utan um það eigi ekki að vera svipaður. Það væri kannski æskilegri leið að mörgu leyti að skuldaaðlögun væri gerð í frjálsum samningum því að það eru dæmi um það í sértækum skuldaaðlögunum að felld hafi verið niður allt að 70–80% af skuldum og fólk hafi komist út úr vandanum án þess að lenda á sérstökum válistum nema hugsanlega hjá einstökum bönkum, ég veit það ekki.