144. löggjafarþing — 15. fundur,  7. okt. 2014.

umboðsmaður skuldara.

159. mál
[15:43]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið.

Það að óska eftir gjaldþrotaferli hjá umboðsmanni skuldara hljóta að vera mjög erfið skref sem fólk þarf að stíga. Stundum er staða viðkomandi orðin slík að ekkert annað er uppi á teningunum til að bregðast við. Sett voru lög um að gjaldþrotaferli. Nú man ég ekki hvað það tók mörg ár áður, en samkvæmt þeim lögum sem við erum með núna og fyrrverandi ríkisstjórn kom á, ef ég fer ekki með rangt mál, þá tekur þetta um tvö ár.

Það kom jafnframt fram í svari hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn minni að það sama gilti um þá einstaklinga sem færu í gegnum gjaldþrotaferli, þ.e. þótt ferlið tæki tvö ár þá væri viðkomandi á svokölluðum válista fjármálastofnana í allt að sjö ár.

Svörin sem ég fékk frá hæstv. ráðherra voru mjög vel unnin. Að vísu var ein fjármálastofnun sem neitaði að svara, taldi sér ekki bera að svara þar sem Alþingi hefði ekki eftirlitsskyldu gagnvart henni þrátt fyrir að ríkið eigi 13% hlutdeild í bankanum. Þá sendi ég framhaldsfyrirspurn á ráðherra sem verður líklega svarað innan skamms, það eru örfáir dagar eftir af þeim tíma, þar sem ég óskaði eftir því að fá svör við hvort fjármálastofnanirnar hefðu sameiginlegan gagnagrunn um einstaklinga og hvort upplýsingar um viðskiptasögur gömlu þrotabúanna hefðu verið færðar yfir í nýju bankana af því að við höfum fengið upplýsingar um að ferlið vari jafnvel lengur en sjö ár. Það verður fróðlegt að fá svör við því.