144. löggjafarþing — 15. fundur,  7. okt. 2014.

umboðsmaður skuldara.

159. mál
[15:45]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið vegna þess að ég fæ tækifæri til að fjalla um þetta mál í velferðarnefndinni með hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur og fleirum.

Það sem mér finnst skipta miklu máli er að við notum þetta tækifæri, jafnvel þó að frumvarpið eigi að geta farið hratt og vel í gegn getum við gert upp og fengið upplýsingar frá hæstv. ráðherra um ýmsa aðra þætti sem þarf að laga varðandi umboðsmann skuldara. Við getum hugsað til framtíðar, um það hvernig umgjörðin um skuldamálin eigi að vera og hvernig við getum búið þannig í haginn að fólk eigi afturkvæmt til lífsins hvað þetta varðar.

Ég verð að taka undir með hv. þingmanni, og það hefur komið oftar fram í umræðunni, að hér er verið að halda svartan lista yfir skuldara í landinu. Það er ekki mjög gegnsætt hvaða reglur gilda um það hvernig haldið er utan þann lista, hversu langan tíma fólk má vera á honum og hvernig því er fylgt eftir að hreinsað sé af honum. Ég held að taka þurfi á þessum málum, ég held að það sé gríðarlega mikilvægt.

Við sjáum núna hvað varðar réttindi fólks á alnetinu eða internetinu að það er orðið mögulegt að hreinsa ýmis mál þar út, jafnvel farið að opna á það. En hér er einhver listi á bak við í þessu samfélagi sem getur orðið til þess að þegar fólk leitar til fjármálastofnana eða banka er hann dreginn fram í tölvunni án þess að viðkomandi hafi hugmynd um að hann sé á listanum, af hverju og í hversu langan tíma. Það getur verið af ólíkum ástæðum sem menn lenda á honum. Mér finnst að það þurfi að vera skýrar reglur um það hvenær þú kemst til baka og sjö ár eru gríðarlega langur tími ef menn hafa verið í samningum um greiðsluaðlögun upp á tvö til þrjú ár og staðið þá að fullu uppréttur, það ætti að líða skemmri tími þangað til viðkomandi getur aftur farið að nota fjármálafyrirgreiðslu.

Ég hvet hæstv. ráðherra til að koma í tengslum við þessa umræðu með þær hugmyndir sem hafa verið uppi og eflaust fáum við þær frá umboðsmanni skuldara í velferðarnefndinni. Ég held að umboðsmaður veiti gríðarlega mikilvæga þjónustu og við þurfum að bæta hana núna þegar farið er að hægjast örlítið um og menn farnir að átta sig á þeirri reynslu sem þegar er komin á framkvæmdina.