144. löggjafarþing — 16. fundur,  8. okt. 2014.

störf þingsins.

[15:05]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. „Aðgengi að lífinu“ er yfirskrift verkefnis sem MND-félagið og Guðjón Sigurðsson, með stuðningi velferðar-, umhverfis- og auðlindaráðuneytis, hafa hrint af stað. Verkefnið er kynnt í öllum grunnskólum landsins og 13 ára nemendum er boðin þátttaka.

Verið er að kynna þeim hvernig aðbúnaður fatlaðra er, hóparnir í skólunum fá hjólastól til umráða í sólarhring og kanna aðgengi í nærumhverfi sínu og skila síðan skýrslu og leggja til tillögur um hvernig bæta megi úr. Besta lausnin mun fá vegleg verðlaun.

Það eru tveir eitilharðir baráttumenn fyrir málefnum fatlaðra, Guðjón Sigurðsson pípulagningameistari, formaður MND-samtakanna, og Arnar Helgi Lárusson, sem er formaður SEM, Samtaka endurhæfðra mænuskaddaðra. Hann er fyrrverandi sjómaður og er núverandi atvinnumaður í hjólastólaakstri. Þeir ferðast á milli skóla landsins og eru að kynna þetta fyrir ungu fólki.

Það er mikilvægt að við stuðlum að aðgengi að lífinu fyrir alla. Það er mikilvægt fyrir fatlaða einstaklinga að hafa aðgang að öllum þeim stofnunum og tækifærum sem við sem teljumst ófötluð höfum. Ég vil aðgengi fyrir alla að lífinu.