144. löggjafarþing — 16. fundur,  8. okt. 2014.

störf þingsins.

[15:07]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ísland er aftur komið á lista hinna staðföstu þjóða. Í fyrradag var upplýst að hæstv. utanríkisráðherra hefði tilkynnt á fundi utanríkismálanefndar þá ákvörðun að lýsa yfir stuðningi við aðgerðir Bandaríkjastjórnar og bandalagsríkja þeirra í Írak og Sýrlandi gegn hinum illræmdu ISIS-hersveitum. Jafnframt var tilkynnt um stuðning Íslands við uppbyggingarverkefni og neyðarhjálp á svæðinu.

Öll hljótum við að fagna því að Ísland leggi sitt af mörkum til að lina þjáningar fólks í þessum löndum. Eins hljótum við að fordæma framferði ISIS-sveitanna og hafa þungar áhyggjur af uppgangi ofstækisafla í þessum viðkvæma heimshluta. Hitt er annað mál hvort það að varpa sprengjum sé nokkurn tíma vænleg leið til að koma á friði. Hernaðarsaga Bandaríkjastjórnar í þessum heimshluta síðasta aldarfjórðunginn bendir ekki til þess. Æ ofan í æ hafa loftárásir verið sagðar til að vernda saklausan almenning en ansi oft hafa helstu fórnarlömin einmitt verið almennir borgarar og ofbeldið bara stigmagnast.

Hvers vegna er ég að taka þetta mál hér upp undir umræðunni um störf þingsins? Jú, því hver svo sem afstaða okkar kann að vera til þessa hernaðar hlýtur þetta mál að vekja upp spurningar um það hvernig ákvörðunartöku um stuðning við hernaðaraðgerðir er háttað. Í flestum löndum eru ákvarðanir um þessi málefni eitt af undirstöðuatriðum í stjórnarskrá og þá langoftast gert ráð fyrir samþykki þingsins. Hér er utanríkisráðherra gefið sjálfdæmi og honum einungis gert að kynna utanríkismálanefnd ákvörðun sína á lokuðum fundi.

Í tillögum stjórnlagaráðs var gert ráð fyrir að þingið yrði að samþykkja slíkar ákvarðanir og ég tel rétt að við skoðum það alvarlega hvort við eigum ekki að binda slíkt í lög.