144. löggjafarþing — 16. fundur,  8. okt. 2014.

störf þingsins.

[15:12]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég hef áhyggjur af ákveðnum hópi aldraðra, þeim sem þurfa að komast inn á dvalarheimili en komast ekki inn sökum vistunarmats sem talið er að í einhverjum tilvikum sýni ekki raunverulega stöðu einstaklinga. Þar höfum við einstaklinga sem geta verið heilsulitlir við ákveðnar aðstæður en mun hressari við aðrar aðstæður þegar allur rammi og öll umgjörð í kringum þjónustu viðkomandi er í lagi.

Stundum er staðan sú að ekki er hægt að komast inn á dvalarheimili því að ekkert dvalarheimili eða heimili af þeim toga eða hjúkrunardeild er til staðar í sveitarfélagi þess sem þarf á þjónustunni að halda.

Stundum er staðan sú að hinn aldraði einstaklingur á erfitt með að vera heima. Heilsan er ekki sem best og erfitt er orðið fyrir viðkomandi að hugsa um allar daglegar þarfir. Þetta getur skapað miklar áhyggjur hjá viðkomandi og hefur því jafnframt áhrif á heilsu því að eins og við vitum flest getur stress haft neikvæð áhrif á líðan okkar.

Víða er mjög góð heimaþjónusta fyrir aldraða en því miður hentar sú þjónusta ekki öllum. Þeim sem hún hentar hentar hún hins vegar mjög vel og í stórum hluta tilvika er reynslan jákvæð. Við megum samt ekki horfa fram hjá þeim tilvikum þar sem einstaklingum líður ekki nógu vel með þetta fyrirkomulag því að mikilvægt er að aldraðir sem hafa skilað sínu til samfélagsins fái þá þjónustu sem þeir eiga skilið og í heimabyggð. Það er afar sorglegt þegar við þurfum að horfa upp á aldraða einstaklinga þurfa að flytjast úr heimabyggð því að engin þjónusta er til staðar sem uppfyllir það þjónustustig sem á þarf að halda. Það eru sveitarfélög sem hafa ekki öldrunardeild eða dvalarheimili, hafa samt sem áður öflugar heilbrigðisstofnanir þar sem hægt er að samþætta þætti er snerta þjónustu við aldraða. Það eru sveitarfélög sem vilja taka upp viðræður um málaflokkinn við ríkið og ég tel það á ábyrgð okkar er störfum hér á þingi að skoða þær hugmyndir vel og með opnum huga.