144. löggjafarþing — 16. fundur,  8. okt. 2014.

störf þingsins.

[15:16]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Þær fréttir sem okkur berast í dag, um úrskurð ESA um innflutning á ferskum kjötvörum, hljóta að vekja upp spurningar um hagsmunamat stjórnvalda þegar kemur að stöðu okkar í Evrópu. Þannig bendir ýmislegt til þess að landbúnaðurinn þurfi í vaxandi mæli að sæta evrópskum reglum, þola fulla samkeppni utan frá vegna þess að við erum aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu; en vegna þess að við erum ekki aðilar að Evrópusambandinu eigi landbúnaðurinn ekki aðgang að mörkuðum þess með sama hætti.

Það hlýtur að undirstrika hversu mikið ábyrgðarleysi það er, af hálfu núverandi ríkisstjórnar, að hafa ákveðið að ljúka ekki aðildarviðræðum við Evrópusambandið; að setja ekki fram samningsmarkmið okkar í landbúnaði og láta reyna á fyrirheit forustumanna Evrópusambandsins í Brussel um að tiltölulega auðveldlega mætti komast að samkomulagi um landbúnaðarmál, um hagsmuni landsins í landbúnaðarmálum; að hafa horfið frá samningaborðinu án þess að láta á það reyna hvort tryggja megi hagsmuni íslenskra bænda í frjálsum samningum við Evrópusambandið, en sitja þess í stað hér og þurfa að taka við úrskurðum um það að bændur skuli sæta evrópskum reglum, lúta samkeppni utan frá en fái ekki að flytja sjálfir frjálst inn á markaðina í Evrópu sem þó gætu vel tekið við vörum framleiddum hér á landi.

Skyrið er kannski besta dæmið um það, sem nú er vaxandi eftirspurn eftir í Evrópusambandinu. Við þurfum að láta framleiða það í útlöndum af því við getum ekki flutt það inn á markaðina sjálf, vegna þess að ríkisstjórnin ákvað að ljúka ekki þeim leiðangri sem hafinn var. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)(Gripið fram í: Hvernig gekk að semja?)