144. löggjafarþing — 16. fundur,  8. okt. 2014.

störf þingsins.

[15:18]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við höfum oft rætt málefni barna og ungmenna í tengslum við geðheilbrigði. Mig langar í framhaldi af því sem við höfum heyrt á undanförnum dögum í tengslum við heimsóknir okkar til sveitarfélaga og eins í fjárlaganefnd að ræða þessi mál örlítið.

Það er bágborið ástand víða og í mínu kjördæmi, svo ég taki það sem dæmi, er staðan því miður þannig, eins og við þekkjum og höfum rætt á þingi, að þar starfar enginn geðlæknir í dag og málin fyrir mjög stórt svæði því alls ekki í góðum farvegi.

Það hafa verið ákveðin úrræði í boði, svokölluð PMT-meðferð sem hefur verið í samvinnu Barnaverndarstofu og Akureyrarbæjar, en nú er svo komið að Barnaverndarstofa sér sér ekki fært að sinna þessari þjónustu, þ.e. að framlengja samninginn. Samningurinn var gerður til bráðabirgða árið 2009 og var svo framlengdur og rann út 2013, held ég, frekar en 2014. Það er búið að tilkynna að þetta verði ekki í boði. Þá eru í rauninni sárafá úrræði fyrir kjördæmið til þess að takast á við málefni barna og unglinga með geðraskanir.

Austurland hefur óskað eftir því að fá sambærilega þjónustu og hefur verið í boði á höfuðborgarsvæðinu, svokallaða MST-meðferð, sem er fjölkerfameðferð, en það er heldur ekki í boði vegna þess að það eru engir peningar settir í þessi mál.

Við erum að tala um framtíðina okkar, unga fólkið. Ég held að það hljóti að vera eitt af forgangsverkefnum okkar sem þingmanna að sjá til þess að það búi við það atlæti sem þarf þegar erfiðleikar steðja að, eins og hér um ræðir. Það er ekki lengur hægt að beita þeim meðferðum sem reynst hafa vel (Forseti hringir.) vegna þess að fjármunir eru ekki veittir í þær.