144. löggjafarþing — 16. fundur,  8. okt. 2014.

störf þingsins.

[15:25]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra Eygló Harðardóttir viðraði það um daginn í fjölmiðlum að viðræður væru hafnar milli ríkis og sveitarfélaga varðandi það að flytja málaflokkinn málefni aldraðra til sveitarfélaga. Hún taldi að þessi málaflokkur ætti vel heima hjá sveitarfélögunum og að mikil samlegðaráhrif fælust í því að heimaþjónusta og heimahjúkrun aldraðra væru samfléttuð. Ég er svo hjartanlega sammála hæstv. ráðherra.

Nú eiga aldraðir rétt á heimaþjónustu og sveitarfélögin sinna þeirri þjónustu en ríkið sér hins vegar um heimahjúkrun. Það er komin mikil reynsla á að samflétta heimahjúkrun og félagsþjónustu hjá þeim sveitarfélögum sem hafa verið með slík tilraunaverkefni og hafa verið með heilbrigðisþjónustuna á einni hendi eins og á Akureyri og Höfn í Hornafirði. Fleiri sveitarfélög hafa óskað eftir því að fá að taka heilbrigðismálin til sín. Þess vegna finnst mér mjög undarlegt að hinn ráðherra velferðarráðuneytisins, hæstv. heilbrigðisráðherra Kristján Þór Júlíusson, sé algerlega á öndverðri skoðun. Hann hefur ákveðið að endurnýja ekki samninginn við Akureyri og taka heilsugæsluna yfir til sín.

Ég spyr: Þegar ráðherrar tala svona og framkvæma hvor í sína áttina undir sama ráðuneyti, hvers eigum við að vænta í þessum málum? Er engin stefna af hálfu ríkisvaldsins hvar þessi málaflokkur á heima (Forseti hringir.) og hvernig við samþættum (Forseti hringir.) heimaþjónustu aldraðra og heimahjúkrun (Forseti hringir.) sem ég tel að eigi að vera á sömu hendi?