144. löggjafarþing — 16. fundur,  8. okt. 2014.

störf þingsins.

[15:28]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Sjúkdómurinn ebóla er mikil ógn við samfélög Vestur-Afríku. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur um nokkurra mánaða skeið kallað eftir viðbrögðum alþjóðasamfélagsins en þau hafa verið takmörkuð þar til nú að tilfelli hafa verið að koma upp hér á Vesturlöndum. Í ríkari löndum heimsins er ógnin ekki sú sama og í Vestur-Afríku.

Hér þýðir þetta meira álag fyrir heilbrigðiskerfið og heilbrigðisstarfsmenn. Við í velferðarnefnd fengum sóttvarnalækni, yfirlækni sýkingavarna á Landspítala og framkvæmdastjóra lækninga og hjúkrunar á sjúkrahúsinu á fund fyrr í dag. Við fengum greinargóðar upplýsingar um að unnið væri eftir ákveðinni áætlun. Ísland á ekki sambærilegar einangrunarstöðvar á sínu sjúkrahúsi og önnur Norðurlönd, en það er ein deild sjúkrahússins sem er jafnframt sú deild lyflækningasviðs þar sem mesta álagið er sem hægt væri með ákveðnum tæknilegum breytingum að nota. Þá er verið að búa til teymi starfsmanna, allt að 25–30 manns, sem mun fá þjálfun og taka til starfa ef á þarf að halda.

Ég held að við séum öll sammála um að verið sé að vinna eins og hægt er við erfiðar aðstæður því að mikið álag hefur verið á íslensku heilbrigðiskerfi undanfarin ár og húsakosturinn er slakur. Þá benti sóttvarnalæknir á að milli Norðurlandanna væri samkomulag þannig að ef til krísuástands kæmi eru löndin skuldbundin til að aðstoða hvert annað varðandi sjúkraflutninga og innlagnir.