144. löggjafarþing — 16. fundur,  8. okt. 2014.

störf þingsins.

[15:30]
Horfa

Haraldur Einarsson (F):

Hæstv. forseti. Á fyrsta eina og hálfa ári ríkisstjórnar hæstv. forsætisráðherra Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hefur mikill árangur náðst í efnahagsmálum, verðbólga er lág og efnahagsspá góð. Á sama tíma og hagkerfið er að taka við sér hef ég sérstakar áhyggjur af einni lánaleið sem fjármálastofnanir bjóða upp á. Ég hef áhyggjur af því að enn þá er boðið upp á verðtryggð jafngreiðslulán og tel að það séu ekki hagstæð lán fyrir neytendur.

Kosturinn við þessa gerð af lánum er lægri mánaðarleg greiðslubyrði í upphafi og lægra greiðslumat. Gallarnir eru að mínu mati fleiri og stærri. Ekki er vitað um heildarkostnað þegar skrifað er undir lán af þessu tagi, ekki frekar en af öðrum verðtryggðum lánum. Í upphafi láns sem er af þessari tilteknu gerð eru miklar vaxtagreiðslur og niðurgreiðsla höfuðstóls er mjög lítil, sem þýðir að eignamyndunin verður lítil sem engin til að byrja með. Það getur verið sérstaklega slæmt fyrir fólk sem þarf að stækka við sig, t.d. út af barneignum.

Áhrifin á verðtryggð jafngreiðslulán verða þannig þegar verðbólga eykst að vaxtakostnaður hækkar og minna er greitt af höfuðstólnum á meðan. Fyrir þá sem hafa lítið á milli handanna eða eru til dæmis óþolinmóðir að kaupa sér fasteign er þessi kostur jafnan sá eini sem bankarnir bjóða upp á. Ég held að það sé kominn tími til að skoða hvort taka eigi af markaði eða takmarka verðtryggð jafngreiðslulán til að vernda lántakendur frá því að skuldsetja sig þannig að fólk lendi ekki í þeim ófyrirséða vanda að ráða ekki við afborganir af lánum sínum. Þess vegna vara ég fólk við því að nýta sér verðtryggð jafngreiðslulán.