144. löggjafarþing — 16. fundur,  8. okt. 2014.

störf þingsins.

[15:34]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Árið 2013 voru lög nr. 33 sett um neytendalán. Þau voru sett til þess að skerpa allar aðstæður varðandi lántöku, hvaða skilyrði menn þyrftu að uppfylla til þess að geta fengið lán og hvaða skilyrði lánastofnanir þyrftu að undirgangast til þess að upplýsa lántakanda um hvað hann skrifar undir þegar hann tekur lán. Þetta er gott og gilt og auðvitaða var nauðsynlegt að draga úr því frjálslega aðgengi að lánsfé sem var hér fyrir hrun. Hins vegar stöndum við frammi fyrir því að fjöldi fólks lendir í verulegum vandræðum og þarf stundum ekki mikla björg, fólk sem er með lágar tekjur, hefur ekki í nein hús að vernda, vantar kannski 200–300 þúsund til að bregðast við óvæntum aðstæðum og útgjöldum sem upp koma í lífi þess. Þegar þetta fólk leitar eftir því að fá aðstoð frá bönkunum í formi hækkaðs yfirdráttar þá gengur það ekki vegna þess að það stenst ekki lánshæfismat eða greiðslumat.

Ein forsenda bak við lánshæfismat er neysluviðmið. Ég tel að það sé í rauninni full þörf á því að líta til þessa hóps og endurskoða þau viðmið sem gilda varðandi hvað liggur að baki greiðslumati.