144. löggjafarþing — 16. fundur,  8. okt. 2014.

störf þingsins.

[15:37]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég hef ákveðið að koma hér upp í forföllum hv. þm. Kristjáns Möllers og ræða aðeins um samgöngumál.

Að öllu gamni slepptu höfum við hv. þingmaður verið sammála um ansi margt sem betur gæti farið í þeim málaflokki en það sem ég vil gera að umtalsefni hér í dag er staðan á innanlandsfluginu. Að því sækir mörg ógnin, það er dýrt að fljúga milli staða. Sem betur fer hefur hæstv. innanríkisráðherra sett á fót starfshóp til að fara yfir þær álögur sem væri hugsanlega hægt að lækka á innanlandsflugið. Ég hef líka hreyft þeim hugmyndum að við samþykktum að innanlandsflugið yrði hluti af almenningssamgöngum í landinu. Gert var samkomulag við Reykjavíkurborg á síðasta kjörtímabili um að það færi um milljarður í almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu gegn því að ekki yrði farið í stórframkvæmdir á svæðinu á sama tíma.

Nú heyrast hins vegar háværar raddir um að fara í slíkar framkvæmdir og þá velti ég fyrir mér hvort við sem erum þingmenn úti á landi, eða búum úti á landi, eigum ekki um leið að gera kröfu um að settir verði meiri fjármunir í almenningssamgöngur. Það fara um 900 milljónir í almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu en hinar 100 deilast svo á milli landsvæða þannig að Vesturland, Suðurland og Reykjanes fá 30 en Norðurland, Norðausturland og Austurland fá aðeins um 3 milljónir.

Þetta hefur virkað vel og ég er þeirrar skoðunar að þetta sé komið til að vera en mismununin er ósanngjörn. Við þurfum að leiðrétta þetta með einum eða öðrum hætti og setja (Forseti hringir.) hluta af þessu fjármagni í innanlandsflugið til að lækka fargjöld á milli landsvæða.