144. löggjafarþing — 16. fundur,  8. okt. 2014.

þjóðarvá vegna lífsstílstengdra sjúkdóma barna og unglinga.

[15:44]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil lýsa ánægju minni með að þetta mál sé núna loksins komið á dagskrá. Ég óskaði fyrst eftir því að taka það til umræðu á síðasta vori en sýni því mikinn skilning að þetta hefur farið eins og það er. Ég vil líka taka fram að þessi umræða hefði allt eins getað verið við hæstv. menntamálaráðherra eða jafnvel einhvern annan ráðherra en ég er afar glaður að hæstv. heilbrigðisráðherra skuli vera hér til andsvara og ætli að taka þátt í þessari umræðu.

Heiti umræðunnar er þjóðarvá vegna lífsstílstengdra sjúkdóma barna og unglinga. Það er sterkt tekið til orða, en ég mun sýna fram á það í þessari umræðu að það er tilefni til þess.

Á undanförnum áratugum hafa gríðarlega breytingar átt sér stað á lífsstíl fólks í hinum vestræna heimi. Hreyfingarleysi og breytt mataræði veldur heilbrigðiskerfinu miklum vanda. Ósmitnæmir sjúkdómar sem tengdir eru lífsstíl munu gera það að verkum að jafnvel fjárhagslega best stæðu ríki heims munu þurfa að grípa til róttækra ráðstafana svo ekki fari illa.

Í Læknablaðinu, 11. tölublaði árið 2012, birtist grein eftir læknana Karl Andersen og Vilmund Guðnason. Þar fjalla þeir um lífsstílstengda sjúkdóma og ógnvænlegar tölfræðilegar staðreyndir sem blasa við Vesturlandabúum á næstu áratugum. Þeir fullyrða að vandinn sé svo mikill að hann sé við það að sliga heilbrigðiskerfi best stæðu landa heims eins og ég minntist á áðan. Þeir taka jafnvel stærra upp í sig en sá sem hér stendur og heitið á greininni er „Langvinnir sjúkdómar: heimsfaraldur 21. aldar“. Mig langar, með leyfi forseta, að lesa upp úr þessari grein:

„Langvinnir sjúkdómar hindra framfarir, hagvöxt og heilbrigði. Fari fram sem horfir munu Vesturlandabúar búa við vaxandi dánartíðni vegna langvinnra sjúkdóma á næstu tveimur til þremur áratugum. … Langvinnir sjúkdómar leiða til fátæktar, skuldavandi heimila eykst og fjölskyldur sem verða fyrir barðinu á langvinnum sjúkdómi geta fest í vítahring vaxandi skulda vegna heilbrigðiskostnaðar og minni tekjumöguleika. Í mörgum löndum kemur þetta niður á menntun barna og stendur í vegi fyrir félagslegu og fjárhagslegu sjálfstæði þessara fjölskyldna. Þetta stækkar gjána milli ríkra og fátækra í heiminum og eykur ójöfnuð.“

Þetta er veigamikið en einungis eitt af nokkrum atriðum sem þessir ágætu læknar benda á í afar athyglisverðri grein sinni. Þá er spurningin: Hvað veldur?

Ef hver og einn lítur í eigin barm er ljóst að skjámiðlar af margvíslegum toga hafa yfirtekið frístundir barna og unglinga í stað leikja og annarrar líkamlegrar áreynslu. Á átta ára tímabili hefur kyrrseta aukist um 50%. Það er gerbreytt umhverfi þegar kemur að afþreyingu ungmenna. Því miður verðum við að horfast í augu við að það veldur auknu hreyfingarleysi.

Ef við berum saman árin 1970 og 2013 liggur í augum uppi hvar vandinn er. Við erum að tala um þróun sem er komin til að vera, því miður.

Árin 2002–2004 gerði Erlingur Jóhannsson, prófessor við Háskóla Íslands, ásamt fleirum rannsókn á lífsstíl 9–15 ára skólabarna. Niðurstöðurnar voru sláandi. 53% stúlkna og 25% drengja hreyfðu sig ekki nægilega mikið miðað við ráðleggingar Lýðheilsustöðvar. Þetta var skólaárið 2003–2004, fyrir tíu árum. Átta árum síðar var sami nemendahópur rannsakaður á ný og hafi fyrri niðurstöður hans verið slæmar voru þær samt hjóm eitt miðað við nýjar mælingar. Kyrrseta ungmennanna hafði aukist um helming og er það í fullu samræmi við aðrar rannsóknir sem framkvæmdar hafa verið. 23 ára einstaklingur hreyfir sig (Forseti hringir.) jafn mikið og 80 ára einstaklingur.

Áður en ég lýk máli mínu vil ég benda á skýrslu sem forsætisráðherra gerði á árinu 2005 samkvæmt (Forseti hringir.) þingsályktun sem var samþykkt 11. maí sama ár. Þar ber niðurstöður allar að sama (Forseti hringir.) brunni; það verður að grípa til viðeigandi ráðstafana. Þar er hugarfarsbreytingar þörf. (Forseti hringir.) Ég er þeirrar (Forseti hringir.) skoðunar að við (Forseti hringir.) verðum, (Forseti hringir.) virðulegi forseti, (Forseti hringir.) að hefja þjóðarátak í þá veru.