144. löggjafarþing — 16. fundur,  8. okt. 2014.

þjóðarvá vegna lífsstílstengdra sjúkdóma barna og unglinga.

[15:55]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég held að enginn vafi leiki á því að mesti sparnaður sem getur orðið í heilbrigðiskerfinu á komandi árum er fólginn í því að það takist að auka forvarnir. Hættan sem fylgir offitu eða yfirþyngd barna, svoleiðis að það sé nefnt réttu nafni en ekki kallað langvinnir sjúkdómar — það sem kallað er langvinnir sjúkdómar er fyrst og fremst vegna þess að börn eru of þung. Þetta er talinn mjög vanmetinn sjúkdómur eða tilhneiging á Vesturlöndum. Ég held að það sé enginn vafi á því að við erum þar ekki undanskilin.

Hæstv. ráðherra er með nýrri tölur, hann sagði held ég að það hefði ekki versnað mjög á síðustu tíu árum hvernig börn hafa þyngst hér á landi, en ég er með tölur úr rannsókn sem kom út 1998. Þar er skoðuð þróun frá 1938–1998 og þá kemur í ljós að á þeim tímum jókst hlutfall of þungra eða feitra barna úr 0,2% í 19%. Í annarri könnun frá svipuðum tíma kemur í ljós að 26% níu ára barna eru of þung eða of feit. Þetta er mjög alvarlegt, virðulegi forseti, og við þessu þurfum við að reyna að bregðast.

Nýútskrifaður íþróttafræðingur sem ég las viðtal við í blaði um daginn segir að það sé þrennt sem mest hætta sé á, það er næringin, það er hreyfing og það er sjónvarpsgláp og þar beri foreldrum að passa upp á krakkana sína.

Ég vona að mér sé fyrirgefið þó að ég segi að ríkisvaldið eigi náttúrlega líka að passa svolítið upp á það og ekki (Forseti hringir.) lækka verð á sykruðum vörum (Gripið fram í: Heyr, heyr.) á kostnað þeirra sem eru hollari. (Forseti hringir.) Það er alveg út í hött.