144. löggjafarþing — 16. fundur,  8. okt. 2014.

þjóðarvá vegna lífsstílstengdra sjúkdóma barna og unglinga.

[15:58]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda þessarar sérstöku umræðu um þjóðarvá vegna lífsstílstengdra sjúkdóma barna og unglinga, hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni, fyrir að taka þetta mál upp, enda tel ég að um mikilvægt mál sé að ræða.

Sem betur fer eru börn ekki farin að mynda með sér lífsstílstengda sjúkdóma. Það er hins vegar fyllsta ástæða til að velta fyrir sér hvaða siði og venjur varðandi lífsstíl við erum að kenna börnunum okkar. Langvinnir sjúkdómar eru fjárhagsleg byrði á heilbrigðiskerfum landa og hagkvæmasta aðferðin fyrir stjórnvöld til að draga úr langvinnum sjúkdómum eru forvarnir og heilsuefling.

Heilsulæsi held ég að sé mjög mikilvægt hugtak í þessu samhengi. Það þarf að fræða börn og raunar fullorðna líka um hvað sé hollt og heilsusamlegt. Þar gegna skólarnir mikilvægu hlutverki. En til þess að auka líkurnar á að einstaklingar taki ábyrgð á eigin heilsu þarf samfélagið og umhverfið líka að styðja við heilsusamlegt líferni. Í stefnumótun Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um mataræði og hreyfingu á heimsvísu árið 2004 kom fram að þessir þættir stýrðust af margvíslegum öflum og því þyrfti að takast á við verkefnið með heildrænum hætti.

Það þarf alltaf að huga að einstaklingnum í samhengi við umhverfið sem hann lifir í en áhrif umhverfis á hegðunarmynstur fólks er vel þekkt. Það er hægt að móta umhverfið þannig að það ýti undir heilbrigt líferni. Þannig hefur tekist að draga úr reykingum með því að draga úr aðgengi og beita sköttum. Svipaðar aðferðir væri hægt að (Forseti hringir.) nota í bland við aðrar til þess að bæta mataræði fólks og auka hreyfingu. Ég ætla að koma nánar að því í seinni ræðu minni.