144. löggjafarþing — 16. fundur,  8. okt. 2014.

þjóðarvá vegna lífsstílstengdra sjúkdóma barna og unglinga.

[16:10]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir þakka hv. þingmanni fyrir að taka þetta mál hér upp og inn í þingið. Krakkar eru býsna flinkir og ég tek undir með hv. þm. Haraldi Einarssyni sem talaði áðan um að það skipti máli að kenna krökkunum líka meira um þetta í skólunum. Þannig síast þetta inn og þau fara að læra að bera ábyrgð á þessu sjálf, skilja líka og skynja allt það upplýsingaflóð um lífsstílstengd málefni sem dynja á okkur í gegnum fjölmiðla og senda oft og tíðum mjög óskýr skilaboð til neytenda á Íslandi, hvort sem það eru börn eða fullorðnir. Það er oft erfitt að greina úr öllum þessum góðu ráðum sem okkur eru gefin á hverjum einasta degi. Það held ég að gæti verið mikilvægt að gera, alveg eins og við kennum fjármálalæsi og annað slíkt til að gera krakkana betur í stakk búin til að takast á við lífið í framtíðinni.

Annað vil ég nefna líka og það er að ég held að við þurfum að staldra aðeins við og velta fyrir okkur forgangsröðuninni innan heilbrigðiskerfisins, þ.e. hvenær og hvar kostnaðarþátttaka kemur inn. Þarf hún ekki einmitt í auknum mæli að koma inn á fyrri stigum en ekki vera mest á þeim síðustu eins og núna? Tökum sem dæmi hnéspelkur. Þar er meiri greiðsluþátttaka þegar maður er orðinn verri í staðinn fyrir að hafa aukna greiðsluþátttöku fyrr og koma þannig hugsanlega í veg fyrir að staðan versni.

Það er af ýmsu taka í þessu en að lokum vil ég taka undir með hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur. Það er algjörlega ofar mínum skilningi hvað þessi ríkisstjórn er að spá með því að leggja það til, án þess að það hafi verið fullreynt, að lækka skatt (Forseti hringir.) á sykruðum vörum, sælgæti og gosdrykkjum. Þetta er furðulegasta ráðstöfun sem ég hef séð í langan tíma og gengur algjörlega (Forseti hringir.) gegn þeim sjónarmiðum sem hér koma fram.