144. löggjafarþing — 16. fundur,  8. okt. 2014.

þjóðarvá vegna lífsstílstengdra sjúkdóma barna og unglinga.

[16:19]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra sérstaklega fyrir að taka undir þau orð mín að hér sé um verðugt verkefni að ræða sem við þurfum að taka á. Það er alveg rétt að núverandi ríkisstjórn hefur stigið ýmis skref í jákvæða átt, til að mynda stofnað faghóp til að fjalla sérstaklega um þessi efni. Ég vil líka þakka hv. þingmönnum sem tóku þátt í þessari umræðu.

Flestir virðast vera á þeirri skoðun að þetta sé mjög alvarlegt málefni þó að sumum finnist kannski of sterkt til orða tekið. Látum það liggja milli hluta, það er aukaatriði. Ég vil þó benda á að þeir læknar og fræðimenn sem hafa fjallað um málið tala um heimsfaraldur 21. aldar. Þær alþjóðastofnanir sem hafa rannsakað það málefni sem hér er til umræðu tala á svipuðum nótum. Ég held það sé þess virði að við tökum einmitt svolítið sterkt til orða hér og mætum undirbúin í þessa umræðu. Ég held að það skipti miklu máli.

Allar þær rannsóknir sem ég hef vitnað í og fræðigreinar komu með tillögu sem miðaði í sömu átt: Það þarf að auka vægi skipulagðra íþróttatíma í skólum og auka fræðslu um mataræði og afleiðingar hreyfingarleysis.

Ég vil benda fólki á að lesa mjög góða lokaritgerð Jóhannesar Gunnars Bjarnasonar í Háskólanum á Akureyri þar sem tekið er á þessum vanda og vitnað í allar þessar fræðigreinar. Við verðum að auka vægi íþrótta í skólum. Það er okkar hér á Alþingi að stuðla að því. Það er langbesta forvörnin í (Forseti hringir.) þessum málum. Þannig getum við komi í veg fyrir stóraukinn kostnað heilbrigðiskerfis þjóðarinnar (Forseti hringir.) til lengri tíma litið.