144. löggjafarþing — 16. fundur,  8. okt. 2014.

aðgerðir til að draga úr matarsóun.

21. mál
[16:24]
Horfa

Flm. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf):

Virðulegi forseti. Ég flyt hér tillögu til þingsályktunar um aðgerðir til að draga úr matarsóun. Á þessari þingsályktunartillögu eru auk mín Brynhildur S. Björnsdóttir, Björt Ólafsdóttir, Guðmundur Steingrímsson, Páll Valur Björnsson, Óttarr Proppé, Svandís Svavarsdóttir, Oddný G. Harðardóttir, Elín Hirst, Frosti Sigurjónsson og Birgitta Jónsdóttir.

Ályktunin hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að skipa starfshóp sem hafi það markmið að mæla og greina umfang matarsóunar á Íslandi og leggja fram tillögur um aðgerðir til að draga úr matarsóun. Ráðherra geri Alþingi grein fyrir framgangi verkefnisins með munnlegri skýrslu á haustþingi 2015. Áætlun um aðgerðir til að draga úr matarsóun liggi fyrir á haustþingi 2016.“

Ástæðan fyrir því að þessi þingsályktunartillaga er lögð fram er sú að það er gríðarleg matarsóun í gangi og er áætlað að einn þriðji eða jafnvel hátt í helmingur allra matvæla sem eru ræktuð og framleidd í heiminum endi með einum eða öðrum hætti sem úrgangur. Þessi sóun á sér stað á öllum stigum framleiðslunnar, hún getur átt sér stað á akrinum, strax eftir uppskeru, við flutning, hjá framleiðendum, í verslunum, í mötuneytum, á veitingastöðum og hjá neytendum.

Ýmsar ástæður eru fyrir því að mat er hent. Það getur verið vegna þess að hans hefur ekki verið neytt fyrir síðasta söludag eða hann hefur skemmst, lítur illa út eða afgangar eru ekki nýttir svo að dæmi séu tekin. Þegar við erum að tala um matarsóun erum við alltaf að tala um mat sem er hent sem að öðru leyti hefði getað nýst. Við erum ekki að tala um það að bananahýði sé hent eða öðru sem ekki er hægt að borða.

Matarsóun er mjög óumhverfisvæn því að framleiðsla, flutningur og urðun á matvælum krefst orku, vatns og landnýtingar. Þá má segja að eftirspurn eftir mat í einum heimshluta þrýsti á aukna landnýtingu hinum megin á hnettinum. Þetta gerir það að verkum að stórum landsvæðum er breytt í ræktunarland. Þetta gerist oft á kostnað mikilvægra vistkerfa, svo sem regnskóga. Þar sem svo mikil og neikvæð umhverfisáhrif hljótast af matvælaframleiðslu er algjörlega ólíðandi hversu miklu magni af matvælum er hent og það á sama tíma og milljarður jarðarbúa býr við hungurmörk. Með þeim matvælum sem nú er hent væri hægt að fæða þá sem svelta. Í skýrslu Sameinuðu þjóðanna, Food Wastage Footprint, kemur fram að 28% ræktunarlands í heiminum, þ.e. 1,4 milljarðar hektara, eru nýtt til að rækta mat sem skemmist eða er sóað. Þá kemur einnig fram að framleiðsla á mat sem ekki er neytt losi árlega 3,3 milljarða tonna af gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið.

Aukin vitneskja er um þetta, um matarsóun, á síðustu árum og þjóðir heims eru farnar að gera sér grein fyrir því að þetta sé vandamál sem þarf að leysa. Ég þekki þetta frá Bretlandi og frá Danmörku. Í Danmörku er herferð sem heitir Stop spild af mad og í Bretlandi hefur verið í gangi herferð um nokkurra ára skeið sem heitir Love food hate waste. Í báðum þessum tilfellum er um að ræða herferðir sem grasrótarsamtök standa fyrir. Í Danmörku hafa menn reiknað út að þar sé árlega hent um 100 kílóum af mat á hvern íbúa, og er engin ástæða til að ætla að aðstæður séu öðruvísi hér á landi. Við vitum það þó ekki því að ekki hefur farið fram nein greining á þessu hér. Ég man eftir einni könnun sem gerð var fyrir nokkrum árum, þá var fólk spurt hversu mikið það héldi að það henti af mat. Slíkar kannanir held ég að gefi yfirleitt ekki góða mynd. Í bresku herferðinni var beinlínis farið ofan í ruslafötur hjá fólki og menn fengu niðurstöðu með því að greina rusl og gátu þá séð hversu miklu neytendur voru að henda í raun og veru.

Það hefur líka komið í ljós að þörf er á vitundarvakningu meðal neytenda en það er samt smátt og smátt að gerast. Í Bretlandi hefur það til dæmis sýnt sig að neytendur telja að umbúðamagnið sé stærra umhverfismál en matarsóunin. Það er líka mjög mikilvægt að sjónum sé ekki bara beint að heimilunum og neytendum, vegna þess að framleiðendur, verslanir, veitingahús og mötuneyti bera jafnvel meiri ábyrgð.

Þessi þingsályktunartillaga mælir ekki sérstaklega fyrir um sérstakar aðgerðir sem ráðherra er falið að ráðast í heldur þarf að meta víðtækt hvaða aðgerðir séu líklegar til árangurs. Þá er eðlilegt að horfa til þeirra landa sem eru komin lengra á veg. En við teljum, sem leggjum þetta fram, að ef vinna á markvisst að því að draga úr matarsóun þurfi hið opinbera að hafa áreiðanlegar tölur og gögn til að vinna út frá. Það þarf að safna saman upplýsingum um það hversu miklu af mat er hent og hvar sóunin á sér stað og þannig er hægt að grípa til hnitmiðaðra aðgerða. Þær geta verið margvíslegar og beinst að ólíkum hópum. Eins og ég sagði áðan teljum við mikilvægt að horft sé til reynslu annarra þjóða sem eru komnar lengra á veg, svo sem eins og Breta og Dana.

Við höfum dæmi um vel heppnaðar aðgerðir hér á landi þar sem menn fara í markvissar aðgerðir til að minnka sóun á mat, og það er mötuneyti Landspítalans. Það er eitthvað sem öll mötuneyti ættu að taka sér til fyrirmyndar. Fram hefur farið kynning á því en mjög metnaðarfullt og flott starf er verið að vinna þar. Síðan má einnig nefna að Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur líka gefið út leiðbeiningar um það hvernig hægt er að draga úr matarsóun.

Ég las bók árið 2010 sem heitir Waste – Uncovering the Global Food Scandal eftir breskan höfund, Tristram Stuart. Þessi bók er margverðlaunuð og hefur hlotið mikla athygli og er að mínu viti skyldulesning fyrir þá sem huga að þessum málum. Þar er vandinn kortlagður en einnig leiðir til úrbóta, þannig að það er smávon, þegar maður er búinn með bókina er von. Þessi sami Tristram Stuart rekur samtök sem vinna að því að minnka sóun og tel ég rétt að hópurinn horfi til þess sem verið er að gera á hans vegum, til aðgerða sem fara fram í Bretlandi.

Það hefur orðið vitundarvakning hér á landi og í september var haldið málþing í Hörpu þar sem gestir og gangandi voru fræddir um matarsóun. Það eru grasrótar- og félagasamtök sem hafa látið sig þetta mál varða og kominn tími til að stjórnvöld taki málið líka alvarlega og afli ganga um umfang sóunarinnar, hvar sóunin á sér stað og móti stefnu um það hvernig draga megi úr matarsóun hér á landi. Við lögðum ekki til hverjir ættu að vera í starfshópnum, heldur væri það í höndum ráðherra, en að hópurinn mundi leita víðtæks samráðs í vinnu sinni í hagsmunasamtökum og opinberum stofnunum, grasrótarsamtökum og frjálsum félagasamtökum.

Ráðherra upplýsti, þegar við vorum að ræða um matarsóun nú í vikunni, að hann tæki þetta mál alvarlega og hefði sett á fót hóp til að vinna að þessum málum. Ég held að það hljóti að vera hægt að ræða þetta tvennt saman og beini því til ráðherrans að taka þessa þingsályktunartillögu og hafa hana til hliðsjónar. Í þeirri vinnu sem ráðherra er að leggja af stað með er ekki gert ráð fyrir að greina eigi vandann eða kalla eftir tölum, eða ég sá það alla vega ekki í fréttinni á heimasíðu umhverfisráðuneytisins. Ég held hins vegar að það sé mjög mikilvægt að kannað verði hvar sóunin á sér stað, hversu mikil sóun á sér stað í verslunum, hversu mikil sóun á sér stað hjá framleiðendum og hjá neytendum og þar fram eftir götunum.

Það eru ýmsar aðgerðir sem hægt er að grípa til og mig langar aðeins að segja frá þessu. Í Bretlandi gengur ein herferðin til dæmis út á það að slakað sé á reglum sem gilda um svínafóður, en þær voru hertar til muna eftir að gin- og klaufaveiki braust út rétt fyrir síðustu aldamót, og að svín megi éta matarafganga svo framarlega sem þeir séu þá gerðir öruggir. Þetta er gert í Japan en bannað í Evrópusambandinu og hér á landi. Mér finnst þetta mjög áhugavert en þessi herferð kallast Pig Idea. Slagorðið er: Let them eat waste. Eða: Leyfið þeim að borða afganga. Maður getur líka farið inn á veitingastað og ef maður fær of mikið á diskinn þá er manni gert auðvelt að taka það með sér, svo að maður þurfi ekki að vera að laumast með servíettu og setja í veskið. Þetta þekkist víða erlendis, þetta er mjög einfalt og er kannski hluti af menningu að finnast það í lagi að geta tekið afganginn með sér og að veitingastaðir bjóði upp á það, geri það auðvelt.

Það er líka annað sem snýr að heimilunum. Á Akureyri, og ég veit að það er þannig í Stykkishólmi líka og kannski víðar, er allur lífrænn úrgangur settur í sérpoka, og ég held að það skref eitt dragi úr sóun. Þegar maður horfir á eftir því sem fer í þennan lífræna úrgang þá fer það ekkert á milli mála hverju er verið að henda af mat og hverju er verið að henda af öðru. Ég held að þetta eitt og sér sé mjög mikilvægt og í raun merkilegt að við skulum árið 2014 ekki vera komin lengra í úrgangsmálum og endurvinnslu.

Það er líka hluti af stóra samhenginu að farið verði í vitundarvakningu hjá neytendum: Hvaðan kemur maturinn og hver eru umhverfisáhrifin af þeim mat sem við borðum? Ef allir í heiminum ætluðu sér að fara að borða nautakjöt væri kíló af nautalundum ekki á 6 þús. kr., það væri kannski frekar á 30 þús. kr. Staðan er þannig að allir í heiminum gætu ekki borðað nautakjöt, jörðin stendur ekki undir því.

Það eru alls konar vandamál í sambandi við framleiðslu á pálmolíu sem er í mjög mörgum matvælum og jafnvel snyrtivörum. Framleiðslan fer fram í Indónesíu og þar er verið að höggva niður skóga og mikilvæg vistkerfi undir pálmolíuakra til að geta framleitt ódýra matarolíu sem við notum síðan og borðum án þess að hafa hugmynd um hver umhverfisáhrifin eru. Þetta sama á við um kaffirækt, kakóbaunir, banana og ýmislegt annað sem við kaupum án þess að gera okkur grein fyrir þeim áhrifum sem ræktunin, framleiðslan og flutningurinn hafa á umhverfið.

Ástæðan fyrir því að matarsóun er komin upp á yfirborðið, held ég, er sú að þetta er umhverfismál sem er tiltölulega auðvelt að bregðast við. Það krefst ekki mikilla breytinga á lífsháttum en getur skipt gríðarlega miklu máli, bæði umhverfislega en líka þegar við höfum í huga að við þurfum að fæða alla jörðina. Í því samhengi er óásættanlegt að við hendum allt að einum þriðja af þeim mat sem er ræktaður.