144. löggjafarþing — 16. fundur,  8. okt. 2014.

aðgerðir til að draga úr matarsóun.

21. mál
[16:44]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég ætla aðeins að koma inn á þetta mikilvæga mál sem ég held að við hljótum flest að vera sammála um að sé þarft að taka til umfjöllunar og gera alvöru úr. Frummælandi kom inn á að nú þegar væri að störfum hópur en þar sem í þessari tillögu er kannski verið að gera ráð fyrir ítarlegri vinnu en á að fara fram í þeim hópi þá vona ég svo sannarlega að ráðherra taki það til sín að þetta fari inn í þá vinnu. Það er svo mikilvægt að við fáum þessa greiningu, að við vitum í rauninni hver sóun okkar er. Þegar maður hugsar til þess eins og kom fram hér í upphafi hversu miklum mat er hent, en það er rúmur milljarður tonna af matvælum sem fer til spillis sem er álíka mikið og framleitt er af mat í Afríku sunnan Sahara, þá eiginlega blöskrar manni, þetta er svo ótrúlegt og við hugsum: Hvaða þátt eigum við í þessu?

Ein af hverjum sjö manneskjum fer svöng í háttinn og 20 þúsund börn deyja daglega úr næringarskorti. Ég held að við munum það mörg hver sem hér erum þegar verið var að ýta manni í að klára af diskinum sínum og muna eftir svöngu börnunum í Afríku. Þetta var uppeldi og tengdist nýtninni en þannig er þetta. Við eigum auðvitað að hugsa til þess þegar við erum að kaupa inn og þegar við erum að elda og neyta að það eru allt of margir sem ekki fá á diskinn sinn.

Maður sér hvernig innkaupin endurspegla lífsstíl okkar og sá lífsstíll hefur gríðarleg áhrif á umhverfið. Eins og hér kom fram eigum við að hugsa sem mest um vistsporið sem við skiljum eftir okkur. Hvað er það sem stýrir okkur sem neytendum þegar við kaupum mat? Veltum við því fyrir okkur hvernig við getum nýtt betur það sem við erum með í höndunum eða hvernig við getum dregið úr matarsóun?

Eins og kom líka fram hefur orðið töluverð vitundarvakning um matarsóun og búið að halda þing um þetta og það er auðvitað til alls fyrst að fólk komi saman og ræði málin, að við veltum fyrir okkur hvað við getum gert og hvernig. Mér dettur í hug, af því að hv. þm. Brynhildur Pétursdóttir nefndi Akureyri og Stykkishólm sem framarlega í flokkun, að það er mikil flokkun á mínu heimasvæði og ég held að þegar sú flokkun var tekin upp hafi maður einmitt orðið mjög meðvitaður um þessi mál. Mér varð ljóst hvað maður hendir í raun oft og tíðum allt of miklum mat og skammast sín fyrir að gera það því það er eitthvað sem ætti ekki að eiga sér stað nema í svo afar litlum mæli að varla væri hönd á festandi.

Ég hef verið í veitingageiranum og hér áðan var talað um verslanir og eins og kemur fram í greinargerðinni þarf að virkja á einhvern hátt þá sem nýta dagvöruhráefni sem við vitum að er ekki ónýtt en á að henda. Það þarf að skoða hvernig er hægt að koma því í umferð þannig að þeir sem þurfa á því að halda geti í það minnsta fengið að nota það sem annars færi í ruslið.

Þessa hluti þurfum við að skoða og eins þetta með síðasta söludaginn sem allt of margir — ég ætla ekki að segja það sem ég hugsaði en allt of margir geta ekki hugsað sér að innbyrða mat eftir síðasta söludag. Ég hef gjarnan bent á það að frystitogarasjómennirnir úti á sjó eru ekki alltaf með allt ferskt enda er þetta auðvitað bara eitthvert viðmið og þýðir ekki að maturinn sé ónýtur, en þetta er eitt af því sem ég held að sé mjög afgerandi hátt hlutfall hér á Íslandi, að því sé hent sem er komið er fram yfir síðasta söludag. Það væri gaman að sjá hvernig það kemur út og hvaða vörum við hendum mest. Það væri áhugavert að skoða hvort það eru t.d. mjólkurvörurnar. Ég held að þær séu stór þáttur í því sem fleygt er.

Það sem er mikilvægast er að hafa þessar upplýsingar, tölurnar og gögnin, eins og ég nefndi áðan, svo hægt sé að finna út úr þessu. Ég man að ég tók þetta fyrir í menntaskólanum þar sem ég var að vinna með nemendum mínum. Það komu myndbönd inn á vefinn, ég man reyndar ekki hvar, í hittiðfyrra þar sem fjallað var um matarsóun. Það er líka hægt að vekja unga fólkið okkar til umhugsunar um hvað það er í raun að láta ofan í sig og hverju það er að fleygja. Mín upplifun var að minnsta kosti sú að það væri ekki mjög mikil meðvitund fyrir því að allt of mikið af mat færi í ruslið.

Ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra. Ég held að þetta sé gott verkefni sem vert er að hraða og vonandi að ráðherrann taki þessa tillögu inn í þann starfshóp sem hann er nú þegar búinn að stofna, til að það megi nýta þá vinnu enn betur með öflun gagna.