144. löggjafarþing — 16. fundur,  8. okt. 2014.

aðgerðir til að draga úr matarsóun.

21. mál
[16:51]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Mér fór þannig, eins og segir af í fornsögunum, að ég mátti ekki við bindast. Ég óskaði þar af leiðandi eftir því að vera leystur af á forsetastóli til að geta tekið þátt í umræðu um þessa ágætu tillögu sem ég fagna og tel að sé mjög tímabær og ástæða til að ræða í stærra og víðara samhengi. Geri ég þó ekki lítið úr vandamálinu sem slíku í sinni þrengstu mynd, að matvælum sé sóað, en í mínum huga er þetta angi af miklu stærra máli sem verðskuldar athygli.

Í fyrsta lagi mundi ég segja að þetta væri uppeldislegt mál og að ágætt væri að velta því fyrir sér með uppeldislegum sjónarmiðum. Hvað viljum við temja börnum og ungmennum í þessum efnum? Hér hafa menn vitnað í það sem þeim var kennt í barnæsku og ég get bæst í þann hóp. Mér var svo sannarlega kennt að það væri mikil synd að sóa mat, að leifa mat sínum, helst ætti að klára af diskinum og umgangast matvæli af virðingu. Kannski var það vegna þess að við sem erum komin á hinn virðulega miðja aldur erum nær kynslóðunum á Íslandi sem kynntust beinlínis skorti af eigin raun, það er ekki lengra síðan, og þá meina ég alvarlegum skorti í þeim skilningi að menn áttu oft í miklum erfiðleikum með að brauðfæða sig. Það hefur ef til vill dofnað yfir því á síðari áratugum með aukinni velmegun þjóðarinnar sem er að sjálfsögðu vel. Það breytir ekki því að gildið sem slíkt á jafn ríkan rétt á sér í dag. Það er hollt uppeldislegt atriði að temja mönnum þessa umgengni, sem og má segja að nýtni almennt á að vera dyggð.

Það var því miður ýmsu snúið á haus á Íslandi á ónefndu skeiði í sögu okkar. Ætli megi ekki segja að nýtnin hafi verið ansi neðarlega á dyggðalistanum eða gildalistanum hjá þjóðinni þegar verst lét og bruðl og eyðslusemi var hafin til skýjanna? Það átti við um matvæli að sjálfsögðu eins og svo margt annað. Menn hentu nýlegum húsgögnum og hlutum. Það mátti helst ekki flytja inn í íbúð nema öllu væri þar rústað. Þær voru varla fokheldar yfirleitt þó að í ágætisástandi væru því að allt þurfti að vera nýtt og fínt í þeim. Þetta er um það bil eins fjarri þeim gildum sem mannkynið þarf að temja sér sem nokkuð getur verið. Mér finnst ekki skipta öllu máli hvort viðkomandi aðili eða jafnvel viðkomandi þjóð telji sig svo ríka að hún hafi efni á þessu. Þetta er einfaldlega siðlaust. Þetta er óábyrgt.

Þá kem ég að því þriðja sem ég vil nefna sérstaklega í þessu samhengi. Það er hugtakið sjálfbær þróun. Ef við ættum að temja okkur eitthvað og reyna að vinna brautargengi í sambandi við sjálfbæra þróun og sjálfbæra framvindu samfélaganna þá væri það ekki síst að umgangast matvælin af sérstaklega mikilli virðingu og sem mjög takmarkaða og verðmæta „auðlind“ eða afurð af jörðinni.

Herra forseti. Ef ég hef réttar tölur í kollinum er mannkynið að síga á áttunda milljarðinn um þessar mundir. Nú hafa menn endurskoðað á nýjan leik spár og það stefnir að því er virðist í heldur hraðari fjölgun en menn höfðu reiknað með. Þannig að 9–10 milljarða markið er fullkomlega í sjónmáli innan þeirra áratuga sem menn höfðu áður reiknað með, síðan endurskoðað lítillega til lækkunar en fært nú frekar upp á við. Það vita allir sem eitthvað hafa kynnt sér þessi fræði að það eitt og sér að sjá fram úr því hvernig verður hægt að brauðfæða slíkan fjölda á jörðinni er alveg gríðarlegt verkefni fyrir mannkynið.

Hvernig þolir framleiðslugeta jarðarinnar eins og hún er í dag, þ.e. ræktanlegt land og höfin sem eru helstu uppsprettur matar í heiminum, það álag sem þessu fylgir? Þar eru mörg ljón í veginum.

Heimshöfin eru nokkurn veginn fullnýtt og jafnvel ofnýtt og ekki verður við því búist að meiri matur verði sóttur í þau með góðu a.m.k. Fiskeldi á landi eða í kvíum, sem er að byggjast ofan á framleiðslu af villtum veiðum, er háð miklum takmörkunum. Það þarf fóður fyrir fiskinn.

Á landi hefur víða gengið á ræktunarland og jarðvegseyðing ógnar framleiðslugetu fjölmargra landa. Iðnvæddur landbúnaður í stórum stíl, sem notar mikið af tilbúnum áburði og eiturefnum, hefur víða skemmt gott land þannig að það er nú ónothæft til eiginlegrar matvælaframleiðslu eða það þarf að hvíla það árum saman. Þar við bætist að skilyrðin eru víða að versna vegna loftslagsbreytinga. Válynd veður og þurrkar og ekki síst skortur á vatni hamlar víða mjög framþróun landbúnaðar eða möguleikum manna á því að brauðfæða sig. Heilar heimsálfur með litlum undantekningum, eins og Afríka, eru í miklum vanda staddar. Það líður aldrei ár svo að við heyrum ekki fréttir af þurrkum og vandræðum eða óveðrum sem eyðileggja uppskeru og þar fram eftir götunum.

Þetta á allt erindi inn í þessa umræðu. Við eigum að setja hlutina í þetta samhengi. Jafnvel þótt við höfum blessunarlega aðgang að ríkulegum kosti til að fæða okkur megum við ekki bara horfa á þetta út frá naflanum á sjálfum okkur og því að Íslendingar geti talist vel settir í þessum efnum, a.m.k. sem stendur. Við verðum við að axla okkar sammannlegu ábyrgð í þessu efni líka.

Ég er algerlega þeirrar skoðunar að það sé mjög brýnt að taka á þessu máli. Það hefur kannski mætt of miklum afgangi í þó þeirri framþróun sem orðið hefur hjá okkur í sambandi við endurvinnslu og endurnýtingu ýmissa hluta. Margt er þar auðvitað ágætlega gert og ánægjulega. Við getum tekið það sem dæmi að talsverð vakning hefur orðið í að henda ekki nýtanlegum hlutum heldur gefa öðrum kost á því að nota þá í gegnum Góða hirðinn, eða eitthvað annað sem einhverjir þurfa ekki á að halda lengur. Flest okkar safna fötum sem við getum séð af og senda til Rauða krossins og þar fram eftir götunum. Margt má auðvitað telja til sem ágætlega er gert og hefur verið að þróast með jákvæðum hætti á undanförnum árum, svo sem skil á umbúðum o.fl. En þetta með mat og matarsóun hefur ekki verið ofarlega á baugi. Þess vegna er mjög þarft að draga það fram og vekja aukna athygli á því, sem og leggja upp einhverjar áætlanir um hvernig við getum unnið markvisst og skipulega að því að draga úr matarsóun og leggja þannig okkar af mörkum.

Hér er lagt til að fela landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra að taka málið í fóstur, sem er málið mjög skylt, og leggja fyrir Alþingi skýrslu um framgang verkefnisins á næsta haustþingi. Þá getur vonandi í framhaldinu fæðst fullbúin áætlun um aðgerðir til að draga úr matarsóun. Ég held að við eigum einmitt að hafa slíka áætlun, vinna samkvæmt einhverri slíkri opinberri stefnu og áætlun, svona „handlingsplan“ eins og það heitir á norrænum tungum, sem við Íslendingar mættum nota oftar og víðar sem tæki þegar við sameinumst um að ná fram einhverjum góðum markmiðum.

Þessi tillaga er flutt af myndarlegum hópi þingmanna úr velflestum ef ekki öllum flokkum. Ég er frekar bjartsýnn en hitt fyrir hönd 1. flutningsmanns á að þetta verði eitt af þeim ágætu málum sem þingið geti sameinast um að samþykkja.