144. löggjafarþing — 16. fundur,  8. okt. 2014.

stofnun samþykkisskrár.

22. mál
[17:23]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég er alveg sammála honum í því að það að þurfa að taka svona ákvarðanir sem fylgja því þegar maður missir einhvern, þ.e. að aðstandendur þurfi að taka þessa ákvörðun, getur verið býsna flókið. Við erum búin að fá veður af því í gegnum fjölmiðla, m.a. núna á árinu sem er að líða og í fyrra líka, þar sem sumum reynist þetta auðvelt og öðrum erfitt en ég skildi það sem sagt þannig að það ætti einmitt að haka við þegar við skiluðum skattframtali.

Ég skildi málið þannig að þar undir væri þá það sem maður mundi fylla út. Þegar ég fór að horfa á þetta og lesa fannst mér það vera svo fjölbreytilegt í raun sem talið var upp, sem sagt allt of margir þættir undir í staðinn fyrir að einbeita sér að skráningu um hvort maður vill gefa samþykki sitt fyrir því að gefa líffæri, hvort maður vill gefa þau til rannsókna eða einhvers annars. Það er það sem mér finnst umhugsunarvert í þessu.

Svo finnst mér reyndar skipta máli hvar þetta er vistað. Ég er ekki sammála þingmanninum um að það sé aukaatriði. Mér finnst skipta miklu máli þegar verið er að safna upplýsingum um okkur hvar þær liggja. Þetta var það sem mér fannst ég þurfa að fá einhvern botn í af því að ég get alveg verið sammála því að það getur verið ágætt að gera þetta. Við höfum rætt þetta mjög lengi og ég er sammála þingmanninum í því að það skiptir miklu máli að þessi umræða fari fram.

Við þurfum að taka umræðuna. Það er búið að gera tilraunir til þess með framlagningu mála hér og þetta er eitt þeirra. Ég tek undir það að hvort sem það yrði þá með þessari samþykkisskrá eða öðru þurfum við að taka umræðu um líffæragjafir.