144. löggjafarþing — 16. fundur,  8. okt. 2014.

stofnun samþykkisskrár.

22. mál
[17:25]
Horfa

Flm. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður nefnir, það er erfitt fyrir aðstandendur að tala um líffæragjöf. Það er í sjálfu sér óháð því hvenær það á sér stað. Það er jafn erfitt fyrir andlát og eftir andlát. Eins og kom fram á fundum hv. velferðarnefndar á sínum tíma getur þetta breytt því hvernig fólk skynjar dánarstundina og það er afskaplega þungbært hvernig sem á það er litið.

Í umræðum um það mál sem var til umræðu á þessum tíma heyrði ég fólk, sem lætur sig þessi mál varða, mikið kvarta undan því að aðstandendur tækju þessa ákvörðun en ekki maður sjálfur. Vandamálið er auðvitað að maður getur yfirleitt ekki tekið þessa ákvörðun fyrr en það er orðið of seint. Þess vegna er hugmyndin að gefa fólki tækifæri til að taka slíka ákvörðun í tæka tíð.

Ég skil ekki alveg, verð ég að segja, hvers vegna það ætti að vera vandamál að hér séu margir þættir undir. Ef menn vilja opna einhverja eina gátt fyrst með einni spurningu frekar en þremur er það gott og blessað. Ég hugsa að ef það er einhver ástæða til að takmarka samþykkisskrána við það komi það væntanlega fram í umfjöllun hv. velferðarnefndar, en ég veit ekki hvers vegna við ættum að takmarka okkur við það. Þessi málefni varða sjálfsákvörðunarrétt einstaklinga, þetta eru málefni sem hafa jafnan stangast á við hagsmuni samfélagsins og ég sé enga ástæðu til að undanskilja neitt þeirra. Það er ekki tæknilega flóknara, það er nákvæmlega sama tæknilega flækjustigið.

Ég kom því aðeins öfugt út úr mér í fyrra andsvari að það hvar upplýsingarnar væru vistaðar væri aukaatriði. Það sem ég meina með því er að þær yrðu ekki vistaðar hjá ríkisskattstjóra, þær yrðu vistaðar hjá viðeigandi stofnun, sem dæmi einhvers staðar í heilbrigðiskerfinu sem mundi vista upplýsingar um líffæragjafir vegna þess að það er þar sem þarf að nýta þær. Sömuleiðis þarf að ræða það betur á fundi (Forseti hringir.) og þá með fulltrúum heilbrigðiskerfisins nákvæmlega hversu viðkvæmar hverjar upplýsingar teljast. (Forseti hringir.) Ákvörðunin um líffæragjöf er ekki endilega jafn persónuleg og þær upplýsingar sem menn vilja síðan hafa.