144. löggjafarþing — 16. fundur,  8. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[17:42]
Horfa

Flm. (Vilhjálmur Árnason) (S):

Virðulegur forseti. Hvað er ég, lögreglumaður sem drekkur ekki áfengi og þriggja barna faðir, að leggja þetta mál fyrir þingið? Er þetta eitthvert alvörumál sem Alþingi á að ræða, alvörumál sem þjóðin vill ræða og vill að rætt verði hér? Eða er þetta óþarft mál sem við erum að eyða tíma þingsins í? Við skulum fara yfir það og málið í heild.

Ég mæli fyrir þessu máli og á því eru 13 flutningsmenn úr fjórum flokkum. Sams konar mál hefur sex sinnum áður verið lagt fram á Alþingi og alltaf hafa verið flutningsmenn á málinu frá Sjálfstæðisflokki, Framsóknarflokki og Samfylkingu. Flutningsmenn hafa verið 29 áður og eru 13 núna, sem sagt 42 þingmenn hafa lagt slíku máli lið. Þar á meðal er núverandi forusta Samfylkingarinnar sem situr á þingi, og 11 þingmenn sitja enn á þingi sem áður hafa komið að þessum málflutningi.

Kannanir segja okkur að meiri hluti þjóðarinnar vill að þetta verði skoðað og rætt. Síðastliðið vor birti Viðskiptablaðið könnun þar sem 62% þjóðarinnar voru hlynnt því að léttvín og bjór færu í verslanir, 365 miðlar gerðu netkönnun ekki alls fyrir löngu þar sem var metþátttaka, 55% þátttakenda sögðust hlynnt því að smásala á áfengi yrði gefin frjáls, sem þýðir að þó við séum með sterkt áfengi inni er ekki mikil lækkun milli kannana.

Þetta er mikið tilfinningamál og skapar alltaf mikla umræðu. Það sem ber hæst í umræðunni, í máli þeirra sem tala gegn þessu, eru áhyggjur af unglingadrykkju. Við skulum skoða það nánar á eftir.

Mjög margir kjósendur hafa haft á því orð við mig að þetta sé mál sem skiptir þá máli, kjósendur af margvíslegum toga. Það er elsti hópurinn sem er síst hlynntur þessu og helst á móti því, en yngsti hópurinn og þeir sem eru þar á milli eru hlynntastir þessu. Það sýnir að komandi kynslóðir eru hlynntar þessu máli. Eru það ekki þær kynslóðir sem við erum að vinna fyrir hér á Alþingi? Erum við ekki að ræða þau mál sem þetta fólk vill og ætlar að búa við í framtíðinni? Þetta er ástæða þess að ég legg þetta mál hér fram og einnig þau jákvæðu áhrif sem ég tel að geti hlotist af því. Og einnig skiptir áhugi minn á byggðamálum máli.

Frumvarpið snýst um að afnema einkarétt ÁTVR á smásölu áfengis. Eftir mun standa Tóbaksverslun ríkisins í staðinn fyrir Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins. Það mun gera einkaaðilum kleift að stofna sérverslanir. Við höfum eina sérverslun með tóbak í dag. Þarna munu verða sérverslanir með áfengi, vín, bjór. Í dag eiga litlu, íslensku bjórframleiðendurnir erfitt með að keppa við stóru framleiðendurna, risana, um sölu á vöru sinni. Þeir gátu stofnað sitt eigið öldurhús sem er hér hinum megin við Austurvöll og heitir Micro Bar. Það gengur bara vel að koma þeirra vöru þannig á markað og annað slíkt. Þetta gátu þeir með veitingahúsið. Þetta geta þeir ekki gert sem verslun. Þeir geta ekki stofnað Micro Verslun. Það gætu þeir ef frumvarpið nær fram að ganga.

Það munu líka verða til sælkeraverslanir þar sem verður kannski meira framboð af sérstökum vínum og vönduðum vínum, fyrir vínáhugamennina og annað slíkt, þar sem fólk getur keypt vín með þeirri matvöru sem verður seld í sömu verslun. Þetta mun gera verslunum heimilt að selja áfengi, matvöruverslunum og öðrum verslunum. Ég tel það mjög mikilvægt til að renna styrkari stoðum undir kaupmanninn á horninu og verslanir í minni byggðarkjörnum út um landið. Ég tel að þetta sé mjög mikilvægt skref fyrir þá aðila.

Þetta mun líka gera brugghúsunum og bændunum, sem eru að framleiða bjór, líkjöra og annað úr besta vatni í heimi, kleift að bjóða ferðamönnum að skoða verksmiðju sína og kaupa sér þann varning sem er framleiddur þar. Ég veit að flest litlu brugghúsin okkar hér á Íslandi gera ráð fyrir þessu í viðskiptamódeli sínu. Þetta yrði leyft í framtíðinni og þau geta selt vöru sína beint frá býli. Þetta mun styrkja ferðaþjónustuna og styrkja atvinnuuppbyggingu út um byggðir landsins.

Allt er þetta takmörkunum háð. Eins og ég sagði áðan hefur þetta mál verið lagt fram sex sinnum áður. Í umræðum þingsins hafa þróast ýmis skilyrði, t.d. að sala verði aðeins leyfð til átta á kvöldin. Það verða takmarkanir á sölustöðum. Ekki verður leyft að selja áfengi í pylsuvögnum og götuvögnum eða á mörkuðum. Ekki verður leyft að selja áfengi á vídeóleigum eða í minni söluturnum og annað slíkt, þar sem er kannski mesta hættan á að ungt fólk gæti safnast saman. Starfsfólk þarf að vera 18 ára til að afgreiða vöruna. Allir aðilar þurfa að fá leyfi frá sveitarstjórn á hverjum stað fyrir sig, eins og vínbúðirnar þurfa í dag, og flokkast þess vegna undir eftirlit Heilbrigðiseftirlitsins.

Ég taldi nauðsynlegt að hafa sterka áfengið með í þessari ferð, ekki bara léttvín og bjór. Ástæðan fyrir því er sú að ég vildi tryggja að þjónustan yrði áfram góð úti um landið. Ef vínbúðirnar væru aðeins að selja sterkt áfengi væri ekki rekstrargrundvöllur fyrir þeim á jafn mörgum stöðum. Þá væri þetta heldur ekki jafn hagkvæmt fyrir minni verslanirnar sem ætlunin er að styrkja með þessu. Ég hef trú á því að ef við getum selt léttvín og bjór, ef við getum selt tóbak, eiturefni, lím og bensín, sem er oft notað til vímugjafar, í þessum verslunum, hljótum við að geta selt sterkt áfengi líka. En einnig var þetta nauðsynlegt til að auka ekki enn á óhagræðið sem vínbúðirnar eru fyrir ríkissjóð.

Það er alveg á hreinu að frumvarpið slakar ekki á kröfum um takmarkað aðgengi ungs fólks að áfengi, auglýsingabann eða álögur á áfengi. Enn er auglýsingabann samkvæmt frumvarpinu og ekkert verið að breyta því þó að margir haldi öðru fram. Enn er í gildi 20 ára aldurstakmark til þess að kaupa áfengi og ekki verið að breyta því. Það er alveg ljóst að þær verslanir, samkvæmt frumvarpinu, sem munu selja fólki undir aldri áfengi fá viðvörun, sektir og verða sviptar söluleyfi við ítrekuð brot. Ég man ekki eftir einni einustu áfengisverslun ríkisins sem hefur verið svipt söluleyfi eða fengið á sig sekt, en ég veit um fjölmarga sem hafa keypt sér áfengi undir aldri þar. Það held ég að við þekkjum flest. Þetta mun verða takmarkað og því er ekki verið að breyta áfengisstefnunni. Áfengisstefnan er áfram sú sama nema hvað frumvarpið gerir ráð fyrir auknum fjármunum til að framfylgja þeirri stefnu.

Tilgangurinn með frumvarpinu er að nálgast þann tíðaranda sem við búum við í dag, fylgja þróuninni og taka mið af því sem fólkið í landinu vill. Eins og ég sagði vilja yngri kynslóðirnar frekar fara í þessa átt, samkvæmt könnunum, og árið 2014 er runnið upp. Er það ekki annars?

Þetta mun auka persónufrelsi og viðskiptafrelsi. Þetta mun auka jafnræði íbúa um landið allt. Þetta mun auka tekjur ríkissjóðs og skapa hagræðingu. Hvernig eykur þetta tekjurnar? Hagrænu áhrifin eru margs konar. Samkvæmt mínum útreikningum sjá 48 áfengisverslanir, 12 þeirra hér á höfuðborgarsvæðinu, um smásölu áfengis. En það er bara einn heildsölulager fyrir tóbak. Þetta skilar 1.200 millj. kr. í arð til ríkissjóðs árið 2013.

Meðaltalsálagning á áfengi er 16,5%, en meðaltalsálagningin í heildsölu á tóbaki er 18%, hún er hærri. Áfengisverslanirnar eru 48. Það eru 48 húsrými, það eru 48 starfsmannahópar, það eru 48 lagerar, það eru 48 kassakerfi, en í heildsölu á tóbakinu er talan alls staðar 1. Hagnaður ÁTVR mun því standa í stað eða jafnvel aukast. Ég sendi ÁTVR spurningar um þetta, hvort þetta væri réttur skilningur hjá mér. Þá kemur það svar að þetta sé ekki aðskilið í bókhaldinu og ekki hægt að svara því. Samt stendur: „Heildsala tóbaks skilar hlutfallslega meiri hagnaði en smásala áfengis. Svo kemur: „Eðli máls samkvæmt kallar smásala áfengis á talsvert fleiri handtök og meira umstang en heildsala á tóbaki.“ Þannig komst ÁTVR hvað næst því að svara þessari spurningu. Þessi arður mun alla vega ekki tapast.

Dagvöruverslun í landinu mun styrkjast, kaupmaðurinn á horninu og litlu verslanirnar út um landið. Þær munu væntanlega skila auknum tekjuskatti til ríkissjóðs. Ferðaþjónustan mun styrkjast og hún mun skila auknum tekjuskatti líka. Þá mun salan til ferðamanna aukast og aukin sala á löglegu áfengi mun aukast á kostnað hins ólöglega. Það mun skila auknu áfengisgjaldi í ríkissjóð og þar af leiðandi til Lýðheilsusjóðs.

Það er einmitt það sem er ætlun þessa frumvarps, þ.e. að taka undir mikilvægi forvarna og fræðslu, rannsókna í þessum málaflokki og meðferðarúrræða. Við tökum undir mikilvægi þessa. Þess vegna ætlum við að nota þessi hagrænu áhrif sem ég fór yfir áðan til að styrkja Lýðheilsusjóð og þar af leiðandi styrkja þá þætti sem ég nefndi. Það eru þeir sem virka til að draga úr þeim vanda sem er hér sökum vímuefnanotkunar, sama hver hún er, hvort sem um er að ræða ólögleg fíkniefni, áfengi, læknadóp eða hvað sem það kallast. Það er mikilvægt að það sé á hreinu, það eru aðferðirnar sem virka, forvarnir og fræðsla. Því þarf að styrkja það og lagt er til í frumvarpinu að framlög til Lýðheilsusjóðs fimmfaldist, fari úr 1% af áfengisgjaldi upp í 5%.

Af hverju segi ég að forvarnir og fræðsla skipti mestu máli í þessu? Ég er hér með gögn af heimasíðu landlæknisembættisins, rannsókn á vímuefnanotkun framhaldsskólanema á Íslandi. Þar segir að árangur hafi náðst og þá sérstaklega í grunnskólum. Einnig hafi náðst árangur í framhaldsskólunum, en hann sé ekki jafn mikill og í grunnskólanum af því að samstarf skóla og foreldra og aðhald gagnvart barninu í þeim leggnum sé ekki jafn mikið. Það góða forvarna- og fræðslustarf sem unnið er í skólanum, í samvinnu við foreldrana og foreldrafélög og þá aðila sem koma að uppeldi barna, virkar í þessum málum. Það ætlum við að styrkja.

Þessi sama könnum segir að náðst hafi glæsilegur árangur hvað varðar reykingar. Það dregur stanslaust úr reykingum, sem er vel. Sígarettur eru að vísu seldar allan sólarhringinn í hvaða sjoppu sem er. En ef við tölum um notkun munn- og neftóbaks þá er árangurinn ekki jafn góður þar. Það er alveg sama sölufyrirkomulagið, en sú neysla stendur í stað. Þessi rannsókn sýnir því ekki að sölufyrirkomulagið skipti máli í þessu. Vissulega höfum við gert mikið átak í forvörnum og fræðslu varðandi sígaretturnar, minna með neftóbakið, þannig að það er það sem virðist vera að virka þar eins og skýrsluhöfundar segja. (Gripið fram í.) Svo er hér kafli um ölvun síðastliðna 30 daga. Þar hefur náðst árangur, sem er vel, það hefur náðst árangur. Ólögleg vímuefni, þau eru ekki einu sinni til sölu, það er bannað að selja þau, bannað að auglýsa þau. Það hefur líka náðst árangur þar, sami árangur. Hvar hefur sölufyrirkomulagið áhrif hér? Það er ekki gott að segja.

Þá skulum við fara í rannsókn sem ég tók úr ársskýrslu ÁTVR sem er hlutfall evrópskra 10. bekkinga sem hafa orðið drukknir 10 sinnum eða oftar á síðustu 12 mánuðum. Þá skulum við skoða efstu sætin: Danmörk er í 1. sæti. Í 4. sæti er Finnland með einokunarverslun, í 5. sæti eru Færeyjar með einokunarverslun, í 9. sæti Svíþjóð með einokunarverslun, í 10. sæti Noregur með einokunarverslun, í 11. sæti er Ísland með einokunarverslun. Í fimm af ellefu efstu sætunum eru lönd með einokunarverslun. Hverjir ætli séu þarna í neðstu sætunum? Frakkland er í 22. sæti, Ítalía er í 20. sæti, Bandaríkin eru í 18. sæti. Það er eitthvað annað sölufyrirkomulag þar en hér. Getur ástæðan fyrir því að Danmörk er í 1. sæti verið þetta viðhorf, þetta samstarf skóla og foreldra, hvernig tekið er á þessu gagnvart börnunum? Á foreldrafundum á Íslandi er rætt um það hvernig eigi að fylgjast með því að unglingarnir drekki ekki áfengi á skólasamkomum. Hjá 15 ára krökkum í Danmörku snýst foreldrafundurinn um það hversu mikið áfengi eigi að kaupa handa þeim. Ætli þetta hafi ekki aðeins meiri áhrif en sölufyrirkomulagið?

Svo er hér rannsókn sem vísindamenn frá læknaháskóla í New York unnu upp úr tölum OECD. Þar reyndu þeir að finna út hvaða löggjöf skilaði bestum árangri hvað varðar neyslu vímuefna. Þar kemur fram að Noregur sé í 1. sæti með bestu löggjöfina, samt má selja bjór upp að 4,6% í verslunum þar. Í 2. sæti er Pólland, en þar er frjáls áfengissala, takmarkanir á auglýsingum, að vísu lítið farið eftir því, 18 ára aldurstakmark og miðlungsháir áfengisskattar. Í 3. sæti er Ísland, við þekkjum lögin hér. Í 4. sæti, hver er þar? Það er Þýskaland. Þar er mikil bjórmenning, frjáls áfengissala, auglýsingar leyfðar, lágur áfengiskaupaaldur, venjulegur vaskur á bjór.

Vissulega getur breytt aðgengi, eins og þetta frumvarp gengur út á, haft áhrif á neysluna að einhverju leyti. Hún getur aukið hana sums staðar og dregið úr henni annars staðar og breytt henni, en aðgengið er ekki sá stóri vendipunktur sem allir vilja meina, þá ályktun vil ég draga út frá þessum niðurstöðum. Heilsuhagfræðingurinn Gylfi Ólafsson hefur birt mastersverkefni sitt sem sýnir, unnið úr sömu gögnum og Rannsóknir og greining vinnur með, sem ég vitnaði í hér áðan, að áfengisneysla unglinga virtist frekar dragast saman þegar vínbúð opnaði í litlum verslunum úti á landi en þegar þar var ekki verslun.

Við getum líka skoðað tölur frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni. Ísland er vissulega með lága neyslu á hvern mann. Áfengisneyslan er ekki mikil. En þegar við skoðum áhættudrykkjuna þá er hún mjög mikil. Við erum með meiri áhættudrykkju en Rússar, Ítalir og Spánverjar og mætti telja marga fleiri. Við erum vel yfir meðaltalinu í því. Það má því lesa margt út úr þessum rannsóknum og könnunum og vísindatímaritum sem fjalla um þetta allt saman.

Í þessari umræðu er alltaf sagt að aðgengið sé aðalmálið, auglýsingar og verð. Hvernig er staðan í dag? Jú, það eru vínbúðir sem selja áfengi. Þær breyttu nafninu sínu úr ÁTVR í Vínbúðin, til að koma víni í undirmeðvitund fólks, auglýsa og auglýsa: Munið eftir skilríkjunum! Af hverju þurfa þær að auglýsa það? Ef fólk kemur ekki með skilríki þá bara getur það ekki keypt áfengi, það er stefna þeirra að selja sem minnst. Þeir auglýsa gegn ölvunarakstri og eru með áróður. Það er vel. Ég fagna því. En af hverju þurfa þeir alltaf að birta lógóið sitt á eftir, Vínbúðin?

Hvernig er þetta ef við göngum inn í stærstu verslunarmiðstöðvar Íslands Smáralind og Kringluna? Við sjáum heila áfengisverslun úr gleri, áfengisauglýsingar í þúsundavís, allar flöskurnar. Þú kemst ekki inn í Smáralind án þess að ganga fram hjá þessu á neðri hæðinni við hliðina á Hagkaup. Ef Hagkaup væri eini aðilinn sem mundi selja áfengi í Smáralind væri áfengið innst í versluninni, mjög lítið áberandi. Hvað gerðu þeir í Hafnarfirði? Tóku vínbúðina úr Firðinum og fluttu hana á fjölmennustu stoðbrautina, Fjarðarhraunið, stórt lógó utan á. Þessar verslanir eru opnar frá tíu á morgnana til átta á kvöldin við alla stofnbrautina og fjölförnu staðina. Ég held að aðgengið sé bara nokkuð gott.

Við verðum líka að horfa aðeins í hvernig þetta er. Í dag er það ríkisstofnun sem ákveður hvort við höfum gott aðgengi að áfengi eða ekki. 64% landsmanna búa á höfuðborgarsvæðinu þar sem eru tólf verslanir opnar frá tíu á morgnana til átta á kvöldin, eins og ég sagði. Þær eru við flestar stofnbrautirnar og stærstu verslunarkjarnana. Ef við tölum um aukið aðgengi og svoleiðis, mega þá bara 64% þjóðarinnar hafa aukið aðgengi og auka neyslu sína? Hvað með okkur sem búum úti á landsbyggðinni? Erum við kannski svona klár að það þarf ekki að hafa vit fyrir okkur á hinu háa Alþingi? Þetta snýst nefnilega um jafnræði, að þetta sé sama þjónusta sem ríkið er að veita.

Á nokkrum stöðum á landinu eru vínbúðirnar opnar einn til tvo tíma á dag. Eins og komið hefur fram eru vínbúðirnar 48, en sveitarfélögin eru 74. Mörg sveitarfélaganna eru með marga byggðarkjarna sem hafa þess vegna ekki þetta aðgengi. Á Höfn er til dæmis opið fjóra tíma á dag, lokað um helgar yfir veturinn. Ef einhver á Höfn ætlar að fara í vínbúð á laugardegi þarf hann að keyra 250 km, svona eins og íbúar á höfuðborgarsvæðinu þyrftu að keyra á Blönduós eða Kirkjubæjarklaustur. Við skulum aðeins hugsa um þetta, jafnræðið og hverju þetta breytir.

Ríkið hefur líka áhrif á aðra verslun. Við höfum heyrt nýleg dæmi þegar Vínbúðin var tekin út úr Mjóddinni og sett inn í blómabúð, tekin úr Firðinum í Hafnarfirði og Spönginni uppi í Grafarvogi. Kaupmennirnir fundu fyrir þessu. Þetta gengur allt gegn aðalskipulagi sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sem vilja styrkja sín hverfi, styrkja kaupmanninn á horninu, hafa sem mest innan handar til að geta stuðlað að minni umferð og bíllausri borg. Á meðan tekur ÁTVR verslanir út úr þessum hverfum og færir þær út á stofnbrautirnar og hefur svarað því opinberlega að það sé stefna þeirra. Svo er alltaf talað um aukið aðgengi en um leið er sagt að vöruúrvalið muni minnka. Ef vöruúrvalið minnkar þá bendir það til þess að ríkið haldi uppi góðu vöruúrvali á kostnað skattgreiðenda. Þetta eru mínir skattpeningar og ég drekk ekki áfengi. Ég sætti mig ekki við það.

Það er mikilvægt í þessu máli að við notum þetta tækifæri, það er aðalmálið, og aukum persónufrelsi og verslunarfrelsi; komum inn á þau byggðasjónarmið sem ég hef farið í gegnum, nýtum tækifærin þar, aukum jafnræði íbúanna, styrkjum verslunina á landinu og það allt saman og nýtum þessi hagrænu áhrif sem fylgja frumvarpinu, að því er ég vil meina, til að vinna gegn áfengisvandanum. Það er verkefnið, vinna gegn honum. Í það notum við fjármunina, að auka forvarnir og fræðslu, í að auka fjármuni í það sem virkar. Að því eigum við að einbeita okkur, ekki bara láta okkur líða vel í skjóli áfengisbanns og halda að það dugi til. Það er bara ekki þannig.

Það vita allir að 5–10% allra þjóða eru fíklar. Ekkert mun breyta því, ekki reglur um aðgengi. Og ef ekki er aðgengi að einni vöru þá sækja þeir sér aðra. Það er bara svoleiðis. Ég mun beita mér að fullu í þessu, gegn áfengisvandanum og öðrum vímuefnavanda. Ég veit að allir flutningsmenn þessa máls eru heilir í því að þeir munu vilja taka á þeim vanda og leggja því lið.

Ég segi: Boð og bönn virka ekki. Ungu fólki finnst uppreisn gegn boðum og bönnum skemmtileg. Við eigum að treysta fólki, sérstaklega ungu fólki. Ef því er treyst þá stendur það undir því. Það er bara þannig.

Þó að ekkert sé gallalaust þá tel ég rökin öll vera með þessu máli. Þess vegna hvet ég okkur þingmenn til að taka skynsamlega umræðu um þetta mál, ræða þetta efnislega. Það er kominn tími til þess að þingið taki afstöðu til málsins. Þetta mál mun ekki fara eitt eða neitt fyrr en þingið hefur tekið afstöðu til þess. Þess vegna vonast ég eftir málefnalegri, efnislegri umræðu um málið þar sem öllum boltum er velt upp og skoðaðir opnum augum.

Ég legg til að þetta mál, eins og þau sambærilegu mál sem síðast voru lögð fram um þetta, gangi til allsherjar- og menntamálanefndar, eins og tíðkast hefur. Það kemur í ljós að besti árangurinn í forvörnum og í vímuefnamálum unglinga hefur náðst í samstarfi við heimili og skóla. Þess vegna er eðlilegt að þetta mál fari til allsherjar- og menntamálanefndar. Ég þakka fyrir þá umræðu sem orðin er og hlakka til að taka þátt í henni áfram.