144. löggjafarþing — 16. fundur,  8. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[18:06]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil gjarnan inna hv. þingmann eftir því hversu mikið forgangsmál þetta sé af hálfu Sjálfstæðisflokksins eða stjórnarflokkanna úr því það er haft hér fremst í röðinni. Við minnumst sum dagsins 18. janúar 2009 þegar brýnasta forgangsmál þáverandi meiri hluta á Alþingi var að ræða brennivín í búðir og Ísland logaði hérna utan við þinghúsið.

Í öðru lagi vil ég spyrja hv. þingmann út frá framsetningu hans hér áðan: Lítur hann á áfengi sem algerlega sambærilegan hlut við hverja aðra neysluvöru? Sér hann engan eðlismun á áfengi og pylsum eða kóki eða hverju sem það nú væri?

Í þriðja lagi vil ég spyrja hv. þingmann: Ef honum yrði nú að ósk sinni að brennivín færi í allar búðir, hvernig hyggst hv. þingmaður þá eftir sem áður framfylgja eða er hann kannski bara á því að eigi að leyfa versluninni að auglýsa þá vöru?