144. löggjafarþing — 16. fundur,  8. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[18:13]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Nú er neysla unglinga á Íslandi með því minnsta sem gerist á byggðu bóli, það er kannski helst í Noregi sem hún er jafn lítil, enda er ekki verið að selja vín í matvöruverslunum í þessum löndum og jafnvel í Svíþjóð er líka gott ástand. Í Danmörku, þar sem vín er selt í búðum, þar er drykkja unglinga með því mesta sem gerist í Evrópu.

Svo er töluvert mikið til af skýrslum. Við búum svo vel að við getum séð og gert samanburð, vegna þess að í Bandaríkjunum og í Kanada er mismunandi eftir fylkjum hvort þetta sé með þessu móti eða ekki. Síðan höfum við séð breytingar sem gerst hafa. Alls staðar þar sem þetta hefur verið gert, alls staðar þar sem vín hefur farið í verslanir, nánast undantekningarlaust, hefur neysla á víni aukist.

Ég kem kannski betur inn á það í ræðu minni. En hefur hv. þingmaður skoðað þessar skýrslur? Telur hann þær allar rangar? Eða er eitthvað sem hann veit sem þessir rannsakendur hafa ekki kynnt sér?