144. löggjafarþing — 16. fundur,  8. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[18:15]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að mig langar helst að svara fyrirspurnum annarra þingmanna sem eru í andsvörum, en mig langaði líka að beina spurningu til hv. þm. Vilhjálms Árnasonar um eftirlit.

Í 22. gr. frumvarpsins er lögð fram krafa á ráðherrann að setja reglugerð um eftirlit smásalanna sjálfra hvað varðar t.d. myndavélar, að halda áfenginu aðskildu frá annarri vöru o.s.frv. Ég sá hins vegar hvergi mikið um eftirlit með smásöluaðilunum, þ.e. til að athuga hvort farið sé eftir reglum sérstaklega um áfengiskaupaaldur sem er að mínu mati svolítið lykilatriði með hliðsjón af því að fólk mun mega samkvæmt þessu frumvarpi selja áfengi við 18 ára aldur en ekki kaupa það fyrr en það verður tvítugt.

Í ljósi þess að smásöluverslanir eru eðli málsins samkvæmt í öðruvísi umhverfi en vínbúðir eru, að því leyti að vínbúðir selja bara áfengi, telur (Forseti hringir.) hv. þingmaður ekki nauðsynlegt að auka eftirlitið sem þó (Forseti hringir.) er til staðar gagnvart tóbaki til þess að (Forseti hringir.) takast líka á við sölu á áfengi?