144. löggjafarþing — 16. fundur,  8. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[18:19]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrsti flutningsmaður óskar eftir því að fram fari ítarleg, skynsamleg umræða um þetta þingmál. Það verður svo sannarlega séð til þess.

Spurt var hvers konar varningur áfengi væri. Því er svarað í greinargerð þessa frumvarps, með leyfi forseta:

„Áfengi er almenn og lögleg neysluvara eins og t.d. tóbak og skotfæri. Því er rétt að spyrja hvort eitthvað sérstakt réttlæti það að stunda áfengispólitík í gegnum verslunarrekstur. Spurningin verður sérstaklega áleitin þegar litið er til þess að hér er starfrækt ríkisstofnun, landlæknisembættið, samanber lög nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu, þar sem forvarnastarf er markvisst mótað og unnið.“

Nú snýr þetta mál, hæstv. forseti, að lýðheilsumálum eins og kom fram strax í upphafi þessarar umræðu og í inngangserindi hv. 1. flutningsmanns. Hann lagði til að málinu yrði vísað til allsherjarnefndar. (Forseti hringir.) Hér hefur verið talað um efnahags- og viðskiptanefnd og ég hef lagt til að málið fari til velferðarnefndar þar sem stefnumótun um lýðheilsu (Forseti hringir.) fer fram og er til umfjöllunar. (Forseti hringir.) Ég vil heyra álit hv. þingmanns (Forseti hringir.) á því hvort hann sé tilbúinn að (Forseti hringir.) taka undir þessi sjónarmið.