144. löggjafarþing — 16. fundur,  8. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[18:35]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ekkert nýtt við það að skoðanir séu skiptar um þetta málefni og ýmis önnur sem lúta að áfengismálum innan okkar ágæta flokks. Hvað varðar meðflutning að málinu þá hygg ég nú að það lýsi því að málið sé ekki í sérstökum forgangi. En hver afstaða einstakra þingmanna flokksins verður til málsins þegar það kemur til afgreiðslu hér verður bara tíminn og nefndastarfið að leiða í ljós. Ég árétta að um þetta hafa verið ólík sjónarmið innan Samfylkingarinnar. Þar er líka rík hefð — bæði sprettur hreyfing okkar úr bindindishreyfingunni og þar eru margir sterkir talsmenn forvarna- og heilbrigðis- og lýðheilsusjónarmiða í þessum málum, en einnig er þar að finna ýmsa talsmenn verslunar- og viðskiptafrelsis með þessa vöru og frjálsrar samkeppni.