144. löggjafarþing — 16. fundur,  8. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[18:37]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. 1. flutningsmaður þessa máls vísaði í tíðarandann og telur að það frumvarp sem hér er komið fram sé í anda hans. Ég held að tíðarandinn stefni í gagnstæða átt eiginlega hvar sem litið er og margir sem áður höfðu eina skoðun til þessa máls hafa aðra nú. Við skulum ekki gera lítið úr því að fólk geti breytt um skoðun og afstöðu. Ég held að almennt geri menn sér betur grein fyrir því hversu alvarlegur áfengisvandinn er í heilsufarslegu tilliti og hve mikið hann kostar samfélagið. Ég ásaka ekki nokkurn mann fyrir að breyta um skoðun, hvort sem hann er í einum flokki eða öðrum.

Í þessum anda spyr ég, einmitt í ljósi breyttra viðhorfa, hvort það sé ekki eðlilegt og í samræmi við þau viðhorf sem nú eru uppi í samfélaginu að þetta mál fari til velferðarnefndar, til þeirrar nefndar sem hefur með lýðheilsumál að gera sem landlæknisembættið, stefnumótandi aðili á þessu sviði, heyrir undir. Það heyrir undir velferðarráðuneytið.

Ég hlustaði á rök hv. þingmanns þar sem hann talaði fyrir því að málið færi til efnahags- og viðskiptanefndar. Ég ætla alls ekkert að útiloka að það sé eðlilegt að svo verði. Þetta snýr að fjáröflun ríkisins og skattamálum og ÁTVR heyrir sem stofnun undir það ráðuneyti þannig að ég hlusta á þau rök.

Ég spyr hv. þingmann að sama skapi hvort honum finnist ekki í samræmi við þau viðhorf sem nú eru uppi í þessum efnum eðlilegt að málið komi til umfjöllunar í velferðarnefnd Alþingis.