144. löggjafarþing — 16. fundur,  8. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[18:42]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið en vil fylgja eftir fyrri ábendingum hv. þingmanns um að æskilegt væri að hæstv. heilbrigðisráðherra væri viðstaddur 1. umr. Ég kallaði raunar sömuleiðis eftir því að hæstv. fjármálaráðherra væri það, kannski ekki síst fyrir það að þeir eru báðir þingmenn Sjálfstæðisflokksins og hafa væntanlega samþykkt framlagningu þingmálsins. Þess vegna hlýtur maður að spyrja hvort um sé að ræða stjórnarstefnuna í þessu þó að um þingmannamál sé að ræða eða stefnu þeirra ráðherra sem með þessa málaflokka fara, annars vegar með fjármála- og efnahagsráðuneytið, sem fellur þá undir verksvið efnahags- og viðskiptanefndar eins og við höfum áður rætt, og hins vegar heilbrigðisráðherrann sem fer með þann þátt sem að lýðheilsunni snýr og sendir sín mál einkum til velferðarnefndar í þinginu eins og við þekkjum.