144. löggjafarþing — 16. fundur,  8. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[18:50]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Árið 2012 skipaði ríkisstjórnin sem þá sat starfshóp til að móta heildstæða stefnu í áfengis- og vímuefnavörnum. Starfshópurinn skilaði frá sér skýrslu í árslok 2013. Þá var þáverandi ríkisstjórn hætt og núverandi ríkisstjórn tekin við. Í lokaorðum þessarar skýrslu segir, með leyfi forseta:

„Mikilvægt er við alla ákvarðanatöku stjórnvalda er varðar áfengi, ólögleg vímuefni og misnotkun ávana- og fíknilyfja og vefaukandi stera að lýðheilsusjónarmið séu höfð að leiðarljósi ásamt bestu þekkingu á virkum og árangursríkum aðgerðum. Einnig er mikilvægt að virkja allt samfélagið til skilnings og samstöðu um aðgerðir og viðhorf til áfengis og annarra vímugjafa.

Nánari útfærsla stefnunnar, með skilgreindum mælanlegum markmiðum og aðgerðum til að ná ofangreindum yfirmarkmiðum, mun koma fram í aðgerðaáætlun sem verður unnin á árinu 2014 og mun gilda í tvö ár í senn. Við val á aðgerðum og forgangsröðun þeirra verður meðal annars stuðst við tillögur frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni. Haft verður víðtækt samráð við hagsmunaaðila í þeirri vinnu.“

Þetta eru með öðrum orðum lokaorðin í skýrslu sem fyrri ríkisstjórn vann að, þ.e. sem setti á laggirnar þennan starfshóp. En þá er komið að núverandi ríkisstjórn, hún tók þessa skýrslu og samþykkti hana. Það gerði hún um áramótin 2013/2014. 24. janúar 2014 birtist á vef Stjórnarráðsins yfirlýsing þar sem segir meðal annars, með leyfi forseta:

„Heilbrigðisráðherra hefur samþykkt stefnu í áfengis- og vímuvörnum til ársins 2020. Á grundvelli hennar verða skilgreind mælanleg markmið og sett fram áætlun um aðgerðir til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt. Stefnan tekur jafnt til neyslu áfengis, ólöglegra vímuefna og misnotkunar á lyfseðilsskyldum lyfjum sem valda ávana og fíkn.

Skaðleg neysla áfengis og annarra vímugjafa hefur alvarleg áhrif á lýðheilsu og er einn af helstu áhættuþáttunum sem leiða til verri heilsu, ótímabærra dauðsfalla og þróunar langvinnra sjúkdóma eins og krabbameins og hjarta- og æðasjúkdóma, segir í skýrslu með nýrri áfengis- og vímuvarnastefnu. Bent er á niðurstöður rannsókna sem sýna að hér á landi hefur tekist að draga verulega úr notkun áfengis, ólöglegra vímuefna og tóbaks meðal grunnskólanema á liðnum árum og staða Íslands að þessu leyti sé með því besta sem þekkist í Evrópu. Einnig sé heildarneysla áfengis undir meðaltali í Evrópu og megi ætla að aðhaldssöm stefna í þessum málum eigi þátt í þessum árangri.

Velferðarráðuneytið leiddi stefnumótunarstarfið í samvinnu við innanríkisráðuneytið, mennta- og menningarmálaráðuneytið og embætti landlæknis. Stefnan felur í sér þau meginmarkmið sem að er stefnt en þeim verður fylgt nánar eftir með formlegri aðgerðaáætlun sem tekur til tveggja ára í senn. Aðgerðirnar munu snúa að forvörnum, meðferðarúrræðum, eftirfylgni í kjölfar meðferðar og endurhæfingar auk lagaramma þessara mála og varða starfsemi ríkis og sveitarfélaga, heilsugæslu, félagsþjónustu, menntakerfisins, frjálsra félagasamtaka, löggæslu og tollayfirvalda.“

Og hér kemur að því sem ég vil leggja áherslu á, hæstv. forseti. Yfirmarkmið stjórnvalda í áfengis- og vímuvörnum til ársins 2020 eru skilgreind í þeirri greinargerð sem birt var 24. janúar á vef Stjórnarráðsins. Hver skyldu þessi yfirmarkmið stjórnvalda í áfengis- og vímuvörnum vera?

„Að takmarka aðgengi að áfengi og öðrum vímugjöfum.“

Frumvarpið sem við erum að ræða gengur í gagnstæða átt.

„Að vernda viðkvæma hópa fyrir skaðlegum áhrifum áfengis og annarra vímugjafa.“

Síðan eru fleiri liðir taldir upp. Hér er einn enn, með leyfi forseta:

„Að tryggja aðgengi fólks, sem á í vanda vegna misnotkunar eða ávana, að samfelldri og samþættri þjónustu sem byggir á bestu þekkingu og kröfum um gæði.“

Þetta snýr inn í heilbrigðiskerfið.

Síðan segir að lokum, með leyfi forseta:

„Á grundvelli stefnunnar verður sett fram aðgerðaáætlun til að vinna að settum markmiðum nýrrar stefnu um áfengis- og vímuvarnir. Gerð áætlunarinnar verður í höndum starfshóps skipuðum fulltrúum velferðarráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis, innanríkisráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis og embættis landlæknis.“

Með öðrum orðum eru þarna sömu áherslurnar og var að finna í lokaorðum skýrslunnar sem ég vísaði til.

Ég vil líka nefna það starf sem unnið hefur verið á vegum Norðurlandaráðs og ég vísa til tillögu um norræna lýðheilsustefnu í áfengis- og tóbaksmálum. Hvaða áherslur skyldi vera að finna þar? Jú, þar er lögð mikil áhersla á margvíslegar, samhæfðar rannsóknir á norrænum vettvangi. Hér segir líka, með leyfi forseta:

„Að semja norræna aðgerðaáætlun með því markmiði að draga úr áfengisneyslu í heiminum um 10% fyrir árið 2025 í samstarfi við alþjóðlegar stofnanir samanber starf sem fram fer á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og ESB.“

Þetta eru áherslurnar.

Það frumvarp sem við erum að ræða gengur þvert á allt þetta. Er ekkert að marka það starf sem unnið er á vegum stjórnvalda? Á að virða það allt að vettugi?

Nú kemur að því að við förum að hlusta eftir því hvað allir þessir aðilar eru að segja. Hvað er landlæknisembættið að segja? Þegar fréttir bárust af því að þetta frumvarp ætti að koma fram í þinginu kom nær samstundis yfirlýsing á vef landlæknisembættisins, nokkru síðar en um svipað leyti. Ég man það vel vegna þess að það var á afmælisdaginn minn, 17. júlí, þar sem varað var við þessu frumvarpi. Þeir sem fara inn á vef landlæknisembættisins í dag munu sjá varnaðarorðin endurtekin og vísað í fræðirit sem vara við þeirri stefnu sem boðuð er í þessu frumvarpi. Þar er líka vísað í skýrslur sem unnar hafa verið á vegum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og ganga líka þvert á þetta.

Hv. þm. Vilhjálmur Árnason vísaði til góðs starfs sem hér hefur verið unnið á vegum skóla, fræðsluyfirvalda, heilbrigðisyfirvalda og foreldrasamtaka í samstarfi við unglinga og hversu miklum árangri það hefði skilað. Hann greindi okkur frá því að þegar dró úr þessu samstarfi hefði neyslan aukist. Það var fylgni þarna á milli. Ég er búinn að lesa niðurlagið í þessari skýrslu. Þar segir ekki að það kunni að skipta meira máli hvert aðgengið er að áfenginu. Hvers vegna halda menn að settar séu þær reglur að tóbak skuli ekki vera til sýnis? Til að draga úr tóbaksneyslu. Halda menn að þegar rauðvíninu er stillt upp við hliðina á kjötvörunni hafi það engin áhrif? Hvers vegna halda menn að þetta sé gert? Eru menn börn? Að sjálfsögðu til að auka neysluna, til að hvetja okkur til að kaupa meira, enda segir í greinargerð frumvarpsins að neysla á áfengi muni að öllum líkindum aukast við þessar breytingar, en við vonumst til þess, er sagt, að það muni jafna sig. Það er viðurkennt að þetta muni gerast.

Með öðrum orðum erum við þá að ganga þvert á það sem íslensk stjórnvöld eru að boða, það sem fulltrúar okkar á norrænum vettvangi og í norrænu samstarfi eru að samþykkja og það sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin sem við eigum aðild að hvetur til. Þetta er allt þvert á það.

Þegar tölur eru skoðaðar sýna þær mjög ótvírætt að það er beint samband á milli dreifingarmátans og neyslunnar, að sjálfsögðu.

Mig langar til að spyrja einnar spurningar: Hvernig stendur á því að við fáum ekki að vita á miðanum utan á rauðvínsflöskunni hve margar kaloríur eru í flöskunni? Hvernig stendur á því að við fáum ekkert að vita um fylgni á áfengisneyslu og lifrarsjúkdómum? Það er komið á tóbakið. Hvers vegna skyldi þetta vera svona? Það er vegna þess að þessi sterki, freki iðnaður leyfir það ekki, þessi sterki, freki iðnaður sem býr yfir gríðarlegri offramleiðslu og er sífellt að leita eftir fleiri hillum til að koma vöru sinni á framfæri. Það er ástæðan. Þess vegna fáum við ekki að vita hve fitandi áfengi er. Við fáum ekki heldur að vita hvaða áhrif það hefur á lifrina í okkur. Það vita heilbrigðisyfirvöldin. Það vita fjármálayfirvöldin. Og þess vegna koma þau saman til funda á alþjóðavettvangi og samþykkja varnaðarorð sem beint er til okkar.

Tíðarandinn, segir hv. flutningsmaður, er allur að breytast. Fólk vill endilega hafa brennivín í öllum búðum. Þetta er rangt, held ég. Ég held að þeir aðilar sem fylgjast best með þessum málum viti að hvarvetna er tíðarandinn að breytast í hina áttina á sama hátt og farið var að taka fyrir tóbakið, t.d. í Bandaríkjunum. Þeir eru sennilega komnir einna lengst í þeim efnum, vagga kapítalismans, að banna tóbak. Menn ættu að fara til Kaliforníu og New York vegna þess að menn átta sig á því hve alvarlegar afleiðingarnar eru.

Það er núna verið að tala um að draga úr svokölluðum „happy hour“ í Bretlandi með lögum. Ég er ekkert endilega að mæla með slíku, ég er bara að vekja athygli á því að tíðarandinn teygir sig inn í þessa átt. Hann er að gera það.

Síðan má ræða þessi mál út frá ýmsum öðrum sjónarhornum. Ég tel að við eigum að taka þessa umræðu fyrst og fremst framan af ef menn ætla virkilega að keyra þetta áfram á grundvelli heilbrigðissjónarmiða, lýðheilsu, en ég er alveg tilbúinn að taka þessa umræðu líka á öðrum forsendum, á skattalegum forsendum. Ég er líka tilbúinn að taka það út frá sjónarmiðum neytandans og jafnræðisins. Halda menn kannski að lítil verslun á landsbyggðinni muni hafa sama vöruúrval og ÁTVR-verslun sem er með 150–170 tegundir að lágmarki á boðstólum? Telja menn það? Það held ég ekki.

Ég veit að til eru þær byggðir á landinu þar sem matvöruverslunin vill ekki sjá vín inn í sínar hillur. Ég staðhæfi þetta. Og hvað þá? Á þá ekki að vera neitt vín á boðstólum á Patreksfirði? Ég spyr.

Þarna er líka jafnræðisspurning á ferðinni. Verðið mun hækka. Það mun draga úr fjölbreytni en jafnframt mun neyslan aukast á öðrum og nýjum forsendum.

Eitt skal ég þó taka undir með hv. flutningsmanni, mér finnst að ÁTVR eigi að gæta meira hófs (Forseti hringir.) en hún hefur stundum gert við að auglýsa starfsemi sína. Ég tek undir það. Hún á að gera það. En (Forseti hringir.) það á ekki að virkja markaðsöflin í þessum efnum til að koma meira (Forseti hringir.) áfengi ofan í þjóðina. Þetta frumvarp (Forseti hringir.) gengur út á það.