144. löggjafarþing — 16. fundur,  8. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[19:10]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ögmundi Jónassyni fyrir ræðuna. Mig langar aðeins að spyrja hann um áfengi sem neysluvöru. Lýðheilsustöð, sem núna heyrir undir landlækni og er orðin hluti af því embætti, gaf út skýrslu á sínum tíma sem heitir: Áfengi – engin venjuleg neysluvara. Það var raunar samantekt úr bókinni Alcohol: No Ordinary Commodity – Research and Public Policy.

Mig langar aðeins að velta því upp, vegna þess að mér finnst þetta svolítið snúast um það þegar við erum að ræða um frelsi í verslun, sem virðist vera meginhugmyndin á bak við það frumvarp sem er til umræðu; eigum við að hafa sömu reglur um áfengi og hverja aðra neysluvöru?

Nú er það svolítið fyndið að í greinargerðinni er tekið fram að áfengi sé venjuleg almenn neysluvara eins og tóbak og skotfæri. Það er svolítið skemmtileg setning. Af hverju er þetta tvennt nefnt en ekki eitthvað annað? Ég vil spyrja hv. þingmann að þessu (Forseti hringir.) og líka að því sem stendur í greinargerðinni og er lýsing á stefnu ÁTVR, að það eigi að vera samfélagsleg ábyrgð í fyrirrúmi hjá ÁTVR og engar söluhvetjandi aðgerðir leyfðar. (Forseti hringir.) Hvernig mun því reiða af með þessu frumvarpi?