144. löggjafarþing — 16. fundur,  8. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[19:17]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er nú ein ástæðan fyrir því að ég held að þróunin verði sú að þetta fari inn í stórmarkaðina, sem hafi það staðlaða umhverfi sem frumvarpið gengur út frá. Ég get ekkert fullyrt um það, en það er mín grunsemd.

Ég ítreka það að ég deili áhyggjum með hv. þingmanni yfir því að með því að stækka hilluplássið og færa þessa vöru inn í venjulegar matvöruverslanir verði þetta meira fyrir augunum á okkur og ekki síst ber okkur að líta til þess að þeir sem eru sérstaklega veikir fyrir áfengi — þeir eru margir og áfengi hefur lagt líf margra í rúst, við skulum ekki gera lítið úr því — eru þá sérlega útsettir að þessu leyti.

Heimurinn er ekki þannig að ein lausn tryggi að allt verði gott og öll vandamál séu úr sögunni, síður en svo, ég er alls ekki að halda því fram. Ég er einfaldlega að halda því fram að þetta fyrirkomulag (Forseti hringir.) mun auka áfengisneyslu á Íslandi og frumvarpið og greinargerð þess tekur undir það sjónarmið.