144. löggjafarþing — 16. fundur,  8. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[19:19]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég deili áhyggjum af því og það gera heilbrigðisyfirvöld í heiminum; það gerir Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin og það gera þeir aðilar sem fjalla um þessi mál á alþjóðavettvangi. Ég vísa í áherslur sem komu fram á vettvangi Norðurlandaráðs, þar sem menn vilja fara sérstaklega í rannsóknir á þessu sviði. Það er nákvæmlega það að þetta skiptir okkur máli, ekki bara út frá lýðheilsulegu sjónarmiði heldur sem einstaklinga og líka sem skattgreiðendur. Við horfum til þessara mála af alvöru og ég hvet til þess að við fjöllum um þau af alvöru. Það er ástæðan fyrir því að ég legg til að málið fari til velferðarnefndar, vegna þess að þetta eru þeir þættir sem þarf að skoða.

Ég hlusta á þau sjónarmið að frumvarpið fari í efnahags- og viðskiptanefnd og mér finnst það alveg koma til greina, en þá yrði það jafnframt að fara til umfjöllunar í velferðarnefnd þingsins til þess nákvæmlega að taka til skoðunar þau sjónarmið (Forseti hringir.) sem hv. þingmaður hefur áhyggjur af í þessu efni.