144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

línuívilnun.

[10:45]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ef ég á að meta orð síðustu tveggja ræðumanna sem hafa fjallað um þetta mál þá vil ég varpa þeirri spurningu til þingsins hvort hér sé verið að fara fram á að menn úthluti ýsukvóta sem að mati Hafró er ekki til, hvort þingið sé tilbúið að brjóta meginprinsipp íslenskrar fiskveiðistjórnar um ábyrgar og sjálfbærar veiðar sem er grundvöllur þess að við getum selt vöru okkar á háu verði á mörkuðum erlendis. Er það það sem þingmennirnir eru að fara fram á? Eru menn ekki tilbúnir að hlusta á vísindaleg rök um að ýsukvótinn fari minnkandi? Vegna of mikils sýnileika og veiðileika á miðunum síðustu tvö, þrjú árin ætla menn, þrátt fyrir minnkandi kvóta, engu að síður að veiða langt umfram það sem vísindin segja? Er það það sem þingmennirnir fara fram á? Ég spyr. (Gripið fram í.) Væru þeir í mínum sporum tilbúnir til að brjóta meginprinsipp íslenskrar fiskveiðistjórnar? Er það það sem þingmennirnir fara fram á?

Ég ítreka að bátar með línuívilnun hafa haft aukinn aðgang að ýsu á liðnum árum umfram alla aðra og línuívilnun veitir eftir sem áður tæplega þrisvar sinnum meiri aðgang að ýsu en ella væri.

Ég geri mér vel grein fyrir afleiðingum þessa. Ég hef hitt menn frá Bolungarvík og gerði mér far um að heimsækja þá þegar ég var þar staddur í öðrum erindagerðum fyrir stuttu. Ég geri mér líka grein fyrir því að þetta vandamál ýsunnar er um allt land og búið að vera lengi. Núna tekur línuívilnunarhlutinn þátt í því, þó þannig að hann hefur engu að síður um þrisvar sinnum meiri aðgang að ýsu en allir aðrir.