144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

innflutningsbann á hráu kjöti.

[10:59]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það með hv. þingmanni að mjög mikilvægt er að gefa bændum landsins tækifæri til að nýta þá sterku innviði sem þeir hafa. Í McKinsey-skýrslunni, þegar fjallað er um framleiðni ólíkra atvinnugreina, var bent á að sjávarútvegurinn væri eina atvinnugreinin á Íslandi sem væri samkeppnisfær við alþjóðlegan markað og aðrar atvinnugreinar, ekki sjávarútveg í öðrum löndum heldur aðrar atvinnugreinar. Bent var á að landbúnaður væri með lága framleiðni en gríðarlegir möguleikar væru þar. Nú eru þeir möguleikar að opnast um allt. Til að mynda er aukning í mjólkurframleiðslu, neyslu, hér innan lands og möguleikar á útflutningsmörkuðum gríðarlegir og mikill hugur í bændasamfélaginu að nýta það tækifæri til uppbyggingar, að auka framleiðsluna og styrkja þar með stöðu sína og auka tekjur.

Varðandi innflutningsmálin þá hafa flestir flokkar á Íslandi í mjög langan tíma og samfélagið í heild sinni verið sammála um að mikilvægt sé að verja þá íslensku búfjárstofna sem við höfum og það heilbrigðisástand sem þeir búa við og sjúkdómsstöðu sem er allt önnur hér en annars staðar. Á þeim grundvelli hafa menn meðal annars sagt að fullmikil áhætta sé fólgin í því að hingað inn komi hrátt kjöt sem dæmi. Í þessu er grundvallarágreiningur við ESA sem lítur fyrst og fremst á þetta sem verslun yfir landamæri, en við leggjum áherslu á að þetta snúist um heilbrigðisástand búfjárstofna á Íslandi. Það hafi meðal annars haft áhrif á öryggi matvæla á íslenskum markaði, vegna þess að við erum með gott eftirlitskerfi. Tíðni matarsýkinga, svo að dæmi sé tekið, er til dæmis hvað lægst í heimi á Íslandi ef ekki lægst. Þetta eru einfaldlega hlutir sem neytendur líta á sem grundvöll þess að geta búið á Íslandi en eru gríðarleg gæði í alþjóðlegum samanburði.