144. löggjafarþing — 17. fundur,  9. okt. 2014.

innflutningsbann á hráu kjöti.

[11:01]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég geri engan ágreining um að það er mikilvægt að halda landinu hreinu af búfjársjúkdómum og sækja skilning á vísindalegum rökum í því. Hitt er stóra málið sem er spurningin um hugmyndina um landbúnaðarstefnu. Matvælaöryggishugmyndin er villuljós. Hún felur í sér eilíf átök milli bænda og neytenda. Hún þvingar fram þessi átök, hún er jafn skökk og við mundum marka þá stefnu að það væri grundvallaratriði fyrir velferð þjóðarinnar að við mundum éta allan þann fisk hér á Íslandi sem veiðist á Íslandsmiðum.

Ísland stendur vel vegna þess að við seljum fisk til útlanda, vegna þess að við sækjum verðmæti með því. Með sama hætti þarf íslenskur landbúnaður á því að halda að geta selt vörur til annarra landa, sækja inn á önnur markaðssvæði. Og eins og varaformaður Sambands ungra bænda bendir réttilega á þá felur þessi hugmynd, um að vera stöðugt að þvinga íslenskan landbúnað til að framleiða á samkeppnishæfu verði (Forseti hringir.) við heimsmarkaðsverð, ekki í sér góða afkomumöguleika (Forseti hringir.) fyrir íslenska bændur. Það eru þessi grundvallarsjónarmið sem ég vildi fá hæstv. ráðherra til að ræða við okkur um að þróa áfram.